5845 krónur fyrir helgarflug til Sviss

Það er hægt að finna ótrúlega ódýra farmiða úr landi í vetur þó verðið hækki verulega ef farþeginn vill innrita tösku eða velja sér sæti.

basel vetur
Basel í vetrarbúningi. Mynd: Ferðamálaráð Sviss

Í bráðum fimm ára hafa þotur easyJet flogið reglulega hingað frá svissnesku borginni Basel. Það hafa því vafalítið ófáir Íslendingar nýtt sér þessar áætlunarferðir, til að mynda yfir veturinn þegar skíðavertíðin í svissnesku Ölpunum stendur sem hæst. Farmiðarnir til Basel geta líka verið óvenju ódýrir og sérstaklega ef bókað er tímanlega.

Dæmi um slíkt er að sá sem pantar í dag flug héðan með easyJet til Basel föstudaginn 18. janúar og heim á mánudeginum 21. janúar borgar aðeins rétt um 44,54 evrur fyrir flugið báðar leiðir. Það jafngildir 5.845 krónum en fargjaldið hækkar um 7 þúsund krónur ef farþeginn vill taka með sér ferðatösku í fullri stærð. Það er s.s. dýrara að kaupa flutning á ferðatösku en farþega þó taskan megi ekki vega meira en 23 kg.

Lágu fargjöldin til Basel eru ekki þau einu sem vekja athygli á vetrardagskrá flugfélaganna því líkt og Túristi greindi frá á sunnudag þá er hægt að fá flugmiða héðan til Rómar og heim aftur á 14 þúsund krónur í vetur.