Afkoman undir væntingum hjá helsta keppinaut íslensku flugfélaganna

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian skilaði hagnaði á þriðja ársfjórðungi eins og við var búist. Það stefnir þó í tap í ár og hækkandi olíuverð setur strik í reikninginn.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Það er óhætt að fullyrða að forsvarsfólk Icelandair og WOW air fylgist grannt með gangi mála hjá Norwegian. Áhuginn skrifast þó ekki á Íslandsflug Norwegian frá norður- og suðurhluta Evrópu heldur umsvif norska flugfélagsins í áætlunarferðum yfir Atlantshafið. Á þeim markaði hefur Norwegian aukið umsvif sín umtalsvert síðustu ár og er til að mynda orðið stærsta evrópska flugfélagið, í farþegum talið, á JFK flugvelli í New York. Stóran hluta af framboðsaukningunni í flugi milli Evrópu og N-Ameríku má líka rekja til Norwegian og þar sem félagið kennir sig við lág gjöld þá hefur þessi sókn Norðmannanna sett pressu á fargjöldin.

Fyrir þeirri þróun finna stjórnendur íslensku flugfélaganna og sérstaklega núna þegar verð á olíu hefur hækkað mikið. Þotueldsneytið kostar þannig um 67% meira í dag en fyrrasumar og síðustu 12 mánuði nemur hækkunin um þriðjungi. Þessi mikla hækkun skapar vanda í flugrekstri og þó forstjóri Norwegian, Björn Kjos, hafi verið brattur í morgun, þegar hann greindi frá hagnaði félagsins á þriðja ársfjórðungi, þá fór hann ekki leynt með áhyggjur sínar af eldsneytishækkunum. Hann telur flugfélagið þó betur í stakk búið en þau sem eru með gamlan og eyðslufrekan flugflota. „Það er enginn séns fyrir þau flugfélög að halda áfram nema hækka verðið. Hvort það gerist eftir einn, tvo eða þrjá mánuði veit ég þó ekki,“ sagði Kjos á afkomufundinum í morgun.

Hagnaðurinn á þriðja ársfjórðungi hjá Norwegian nam um 1,6 milljarði norskra króna en það samsvarar um 23 milljörðum íslenskra króna. Greinendur höfðu spáð aðeins hærri hagnaði á þessum besta fjórðungi ársins og miðað við afkomuna það sem af er þá er búist við að Norwegian verði rekið með tapi þegar allt árið verður gert upp. Eigið fé Norwegian hefur verið við sársaukamörk og til að ráða bót á því hafa stjórnendur þess boðað sölu á flugvélum til að draga úr skuldum og auka lausafé.

Nú er nærri hálft ár frá því að í ljós kom að stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, komu út úr skápnum með áhuga sinn á yfirtöku á Norwegian. Í kjölfarið lögðu þeir fram tvö tilboð í flugfélagið en stjórn þess hafnaði þeim báðum. Óvíst er um framhaldið á þeim viðræðum og eins hefur ekkert heyrst á ný af því hvort forstjóri Lufthanda Group hafi ennþá áhuga á félaginu líkt og hann lýsti yfir í sumarbyrjun.

Icelandair birti afkomu sína á þriðja ársfjórðungi á þriðjudaginn. Gera má ráð fyrir álíka upplýsingum frá WOW air enda boðaði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, bætta upplýsingagjöf í tengslum við skuldabréfaútboð félagsins í sumarlok.