Áfram sækja íslensku flugfélögin á sömu mið

Leiðakerfi Icelandair og WOW air verða sífellt líkari.

vancouver yfir d
Til Vancouver munu bæði Icelandair og WOW air fljúga á næsta ári. Mynd: Ferðamálaráð Vanvoucer

Í haust hefur WOW air kynnt flug til tveggja nýrra áfangastaða. Fyrst var það Orlandó í Flórída og í dag bættist við flug til Vancouver í Kanada. Þotur Icelandair hafa flogið til beggja þessara borga um árabil en stjórnendur þess flugfélags hafa líka sótt á markaði helsta keppinautarins. Fyrir ári síðan bætti Icelandair við flugi til Berlínar og skömmu síðar var það Dublin, San Francisco og Baltimore. Í vor fer félagið síðan jómfrúarferð sína til Dusseldorf. Með öllum þessum viðbótum eiga íslensku flugfélögin tvö því í samkeppni um farþega til 21 borgar en sumarið 2017 voru þær aðeins 15.

Hver endanlega tala verður næsta sumar á eftir að koma í ljós þegar sumaráætlunin liggur fyrir. Ennþá hafa stjórnendur WOW ekki gefið upp hvort flugfélagið hætti fluginu til Dallas og láti sér nægja að flúgja aðeins til Newark flugvallar í New York og leggi niður ferðirnar til JFK.

Völdu Vancouver

Sem fyrr segir þá bættist kanadíska borgin Vancouver við leiðakerfi WOW air í dag. Borgin verður þriðji áfangastaður flugfélagsins í Kanada og jafnframt sá fyrsti á svæði sem stundum er nefnt „Pacific Northwest“. Er þar átt við bandarísku fylkin Oregon og Washington og British Columbia í Kanada. Icelandair hefur fótað sig vel á þessu svæði með flugi til Seattle, Portland og Vancouver og hafði Túristi spáð því að WOW myndi bæta þeirri fyrstnefndu við leiðakerfi sitt nú í vikunni. Það gerðist hins vegar ekki því Vancouver varð fyrir valinu en jómfrúarferð WOW til borgarinnar er á dagskrá í sumarbyrjun og nær áætlunin fram í lok október.