Andri Már Ingólfsson kemst á blað

Nafn eiganda Travelco Nordic er nú að finna á heimasíðu félagsins. Þar fer þó lítið fyrir tengslunum við forvera félagsins.

Skjámynd af vef Travelco Nordic

Norrænu ferðaskrifstofurnar sem Andri Már Ingólfsson á heyra ekki lengur undir hið íslenska Primera Travel Group hf. Eignarhaldið hefur verið flutt yfir í danskt félag og hefur heiti þess verið breytt úr Primera Travel í Travelco Nordic.  Andri tilkynnti um þessar breytingar í flýti á laugardag eftir að hafa komið sér undan því að svara spurningum Túrista um ástæður þess að eignarhald dönsku og sænsku ferðaskrifstofanna, sem tilheyra samstæðunni, voru ekki lengur sagðar í eigu Primera Travel Group.

Fréttatilkynningin sem Andri sendi út á laugardag var þó ekki það eina sem var unnið hratt því á nýrri heimasíðu hins nýja móðurfélags er heiti Heimsferða vitlaust stafsett, Andra er hvergi getið og ekki minnst á tengslin við Primera Travel Group. Á heimasíðunni er Daninn Peder Hornshøj kynntur sem framkvæmdastjóri hins nýja móðufélagsins en Andri hefur verið framkvæmdastjóri samstæðunnar hingað til.

Í samtali við Túrista á laugardag viðurkenndi Hornshøj að ástæða nafnabreytingarinnar væri meðal annars sú að fjarlægja reksturinn frá hinu gjaldþrota Primera air sem var jafnframt í eigu Andra. Þegar Túristi spurði Hornshøj afhverju eigandans væri hvergi minnst á heimasíðu Travelco Nordic sagði framkvæmdastjórinn að hann sjálfur hefði alltaf verið andlit rekstursins í Danmörku en ekki Andri. Hann útilokaði þó ekki að textanum á heimasíðunni yrði breytt og staðfesti svo stuttu síðar að nú væri nafn Andra Más Ingólfssonar komið inn á heimasíðuna. Hann er þar titlaður sem stjórnarformaður og eigandi.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu, sem Andri sendi á íslenska fjölmiðla, segir að hann verði stærsti hluthafi Travelco. Aðspurður segist Hornshøj hins vegar ekki eiga hlut í fyrirtækinu. Það sé 100% í eigu Andra.

Þess má geta að Andri hefur ekki ennþá svarað spurnngum Túrista um hvað verði um Primera Travel Group hf. en eignir þess voru metnar á tæpa 18 milljarða (141 milljón evra) um síðustu áramót. Þar af nam viðskiptavild um 7,4 milljörðum króna og ónýttur skattaafsláttur, lán til dótturfyrirtækja og óefnislegar eignir vega líka þungt. Fyrirtækið tapaði rúmum 700 milljónum króna í fyrra en hátt í 2 milljörðum í hittifyrra.