Arion tapar stórfé á falli Primera air

Í dag mun stjórn Primera air, flugfélags Andra Más Ingólfssonar, fara fram á greiðslustöðvun. Fyrirtækið var í viðskiptum við Arion bankar sem tapar allt að 1,8 milljarði á gjaldþrotinu. Hlutabréf bankans tóku dýfu á kauphöllinni í Stokkhólmi í morgun.

Primera air er gjaldþrota og hefur rekstur þess verið stöðvaður. Ekki er ljóst hversu háar skuldir félagsins eru en nú í morgun sendi Arion banki frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að bankinn geri ráð fyrir að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi 2018. „Áhrifin munu nema um 1,3 – 1,8 milljarði króna, að teknu tilliti til skatta, og mun hlutfall eiginfjárþáttar 1 lækka um u.þ.b. 0,2 prósentustig vegna þessa. Fyrirgreiðslurnar tengjast félagi sem hefur verið í viðskiptum við bankann og fyrirrennara hans um árabil,“ segir í tilkynningu til kauphallar. Þó ekki komi fram að þetta tap bankans skrifist á fall Primera air má fastlega gera ráð fyrir að svo sé.

Hlutabréf Arion eru skráð í kauphöllina í Stokkhólmi og hafa bréf bankans sveiflast töluvert í morgun. Lækkunin nam um 13,5 prósentum eftir fyrstu viðskipti en lækkunin núna er um 6 prósent.