Arion tók við millifærslum frá farþegum Primera air

Forsvarsmenn Arion hafa ekki viljað staðfesta að Primera air hafi verið í viðskiptum við bankann. Heimasíða flugfélagsins er hins vegar með svarið.

Upplýsingar um reikningsnúmer Primera air hjá Arionbanka eins og þær birtust á heimasíðu flugfélagsins. Skjámynd af Primeraair.is

Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur lækkað um 7 prósent í kauphöllinni í Stokkhólmi það sem af er degi. Skrifast sú mikla lækkun væntanlega á afkomuviðvörun sem bankinn sendi frá sér í byrjun dags þar sem fram kom að þar sem fram kemur að stjórnendur hans geri ráð fyrir að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir vegna ófyrirséðra atburða. Áhrifin munu nema um 1,3 – 1,8 milljarði króna en allt að 2,25 milljörðum með sköttum.

Ekki kemur fram í tilkynningu Arion hvaða atburður þetta er sem veldur bankanum svona miklu tjóni en líkt og Túristi greindi frá í morgun þá eru allar líkur á að um sé að ræða greiðslustöðvun Primera air.

Talsmaður Arion hefur ekki viljað staðfesta tengsl bankans við Primera air en eins og sjá má á heimasíðu flugfélagsins þá hefur farþegum þess staðið til boða um langt skeið að borga fyrir flugmiða með millifærslu á reikning Primera air í Arion banka. Það sýnir vissulega ekki fram á lánveitingar bankans til flugfélagsins en er þó staðfesting á viðskiptasambandi milli fyrirtækjanna tveggja.