Besti fjórðungurinn í fluginu að baki

Bráðlega kemur í ljós hversu vel stjórnendum Icelandair og WOW tókst að nýta háannatímann til að jafna út hið mikla tap sem varð á fyrri helmingi ársins.

Það gengur vel að fylla þotur Icelandair og WOW en spurningin er hvort farmiðaverðið endurspegli að einhverju leyti aukin kostnað flugfélaganna. Myndir: Icelandair og WOW air

Það er engum blöðum um það að fletta að hagur Icelandair og WOW air hefur farið versnandi undanfarin misseri. Staða þeirra er þó vissulega ólík því sjóðir Icelandair eru mun digrari og flugfélagið á allar sínar þotur nema eina. Eigið fé WOW air er hins vegar takmarkað og þoturnar flestar teknar á leigu. Milljarða tap á fyrri helming ársins eiga félögin þó sameiginlegt og líka þá von stjórnenda að staðan batni verulega á seinni hluta ársins og þar vegur nýliðinn ársfjórðungur þungt. „[Þ]riðji fjórðungur á þessu ári verður næstbesti ársfjórðungur í sögu félagsins og því teljum við afkomuspána fyrir seinni hluta ársins í takt við væntingar okkar,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, til að mynda í viðtali við Fréttablaðið í lok ágúst.

Nú er þessi ársfjórðungur liðinn og í ljósi umræðunnar síðustu mánuði þá er ljóst að uppgjörsins er víða beðið með óþreyju. Ennþá hafa flugfélögin ekkert gefið út um hvernig gekk nema mánaðarlegar farþegatölur. Samkvæmt þeim þá voru þoturnar þéttsetnar í september því hjá WOW var sætanýtingin 88% og 81% hjá Icelandair. Þessi hlutföll segja þó lítið um reksturinn og til marks um það þá var mánaðarleg nýting hjá WOW að jafnaði 88% fyrstu 9 mánuði ársins 2016 og rekstrarhagnaðurinn (EBITDA) nam 5,9 milljörðum á því tímabili. Fyrstu níu mánuði þessa árs hefur meðaltals sætanýtingin verið hærri eða 91% en næsta víst að afkoman fyrir tímabilið mun ekki endurspegla þá bætingu því rekstrartapið á fyrri helmingi ársins var 5,2 milljarðar króna. 

Það liggur ekki fyrir hvort WOW air hafi verið rekið með tapi eða hagnaði á fyrri helmingi ársins 2016 en á því tímabili var hagnaðurinn hjá Icelandair um 6,6 milljarðar. Niðurstaðan fyrstu sex mánuðina í ár var hins vegar tap (EBITDA) upp á rúma 6 milljarða. Sætanýtingin á báðum þessum tímabilum var sú sama eða 80% að meðaltali.

Þessar flutningatölur flugfélaganna gefa því mjög takmarkaða sýn á gang mála og sérstaklega þegar upplýsingar um verðþróun eru ekki opinberar. Þar gætu forsvarsmenn íslensku flugfélaganna tekið skandinavíska kollega sína til fyrirmyndar því í mánaðarlegu uppgjörum SAS og Norwegian er að finna upplýsingar um farmiðaverðið. Í september lækkaði til að mynda meðalfargjaldið hjá Norwegian um 3% en þá voru 89 af hverjum 100 sætum skipuð farþegum. Sætanýtingin hjá SAS var mun lægri eða 78% en þar hækkaði meðalverðið um 5%.

Hversu háar tekjunar voru af hinum þéttsetnu þotum Icelandair og WOW á eftir að koma í ljós. Hitt er þó vitað að það er mun dýrara að reka flugfélaga í dag en það var í fyrra og munar þar miklu um hækkanir á þotueldsneyi. Olíuverðið hefur nefnilega hækkað 40% síðustu 12 mánuði og  verðmunurinn frá haustinu 2016 er tvöfaldur.