Bóka gistingu með styttri fyrirvara bæði í Reykjavík og úti á landi

Hótelunum á vegum Icelandair Group hefur fjölgað frá því í fyrra en engu að síður var nærri hvert einasta herbergi nýtt í nýliðnum september.

Frá Konsulat hótelinu í Hafnarstræti. Mynd: Icelandair hótelin

Ásókn í hótelgistingu hér á landi er ennþá mjög mikil miðað við þær tölur sem birtast í uppgjöri Icelandair hótelanna fyrir nýliðinn september. Þar kemur fram að þrátt fyrir að framboð hótelkeðjunnar hafi aukist um fimmtung frá sama tíma í fyrra þá jókst nýtingin úr 90,0% í 93,7%. „Þessi aukning dreifist vel á hótelin hjá okkur svo það er engin ein ástæða sem hér er að baki,“ segir Hildur Ómarsdóttir, hjá Icelandair hótelunum. „Það er afar ánægjulegt að sjá aukninguna á landsbyggðinni. Nýja hótelinu okkar í Mývatnssveit hefur verið vel tekið frá því við opnuðum fyrstu herbergin í byrjun júlí sl. Í september er svo hástökkvari mánaðarins hótel okkar á Egilsstöðum, með 12,5% aukningu milli ára. Þótt fækkun hafi orðið á viðskiptum frá stórum ferðaheildsölum milli ára, sjáum við á sama tíma aukningu í bókunum með styttri fyrirvara og allt niður í samdægurs á landsbyggðinni í september, sem er ánægjuleg þróun, og í takt við stefnu okkar í tekjustýringu,“ bæti Hildur við.

Sem fyrr segir jókst framboðið á hótelum Icelandair um fimmtung frá september í fyrra eða úr nærri 28 þúsund nóttum í hátt í 24 þúsund nætur. Aðspurð um hvort hin góða nýting hafi ekki verið meiri en búast hefði mátt við í ljósi aukningar í gistirýmum, þá segir Hildur, að framboðsaukningin hafi miðað að því að breikka þjónustuframboðið og bjóða nýja valkosti. „Þannig þarf aukið framboð alls ekki að hafa neikvæð áhrif á nýtingu, síður en svo. Aukningin frá fyrra ári eru Icelandair hóteli okkar í Mývatnssveit, Reykjavík Konsúlat hótelið við Hafnarstræti og Hótel Alda við Laugaveginn. Þessi aukning er vel ígrunduð og rímar vel við þau hótel sem við rekum fyrir. Við teljum það mikilvægt að bæta markvisst þjónustuframboð okkar undir nýjum og ólíkum vörumerkjum, frekar en að fjölga áfram herbergjum sem höfða til sama markhóps og áður. Þetta á sérstaklega við í Reykjavík.“

Hildur segir söluherferðir fyrir veturinn vera í fullum gangi. „Við höfum náð ágætum árangri undanfarið við að tekjustýra í takt við breytt bókunarmynstur og gerum okkur vonir um að svo verði áfram.“