Búist við rúmlega 600 gestum til Akureyrar í vikunni

Ferðakaupstefnan Vestnorden Travel Mart verður sett á morgun og stendur hún yfir fram á fimmtudag.

Frá Vestnorden 2016. Mynd: Íslandsstofa

Ferðakaupstefnan Vestnorden Travel Mart verður sett á Akureyri á morgun. Rúmlega 600 gestir fá samtals 30 löndum hafa boðað komu sína. Þar af eru 70 að taka þátt í fyrsta sinn samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Íslandsstofu. Þar segir jafnframt að Vestnorden sé mikilvægasta ferðakaupstefnan sem haldin er á Norður-Atlantshafssvæðinu. „Meginhlutverk hennar er að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Hún er einnig frábært tækifæri til að kynna Ísland sem áfangastað.“ Eliza Reid, forsetafrú, er sérstakur gestur kaupstefnunnar og mun hún leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrga ferðahegðun í ferðaþjónustu í inngangsorðum sínum. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ráðherra ferðamála flytur jafnframt ávarp.

Á Vestnorden verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum. Áherslur kaupstefnunnar í ár eru sjálfbærni og ábyrg ferðahegðun og því verður „Heitið“ eða The Icelandic Pledge áberandi á sýningunni. Þar eru ferðamenn hvattir til að samþykkja átta atriði sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun, svo sem að bera virðingu fyrir náttúrunni, skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, eða koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum sem og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland og reiðubúinn öllum veðrum.

Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við NATA og munnga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, mun setja Vestnorden Travel Mart í Menningarhúsinu Hofi kl. 8:30 á morgun. Skipulagning er í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Akureyrarstofu.