Dohop lofar ekki lengur lægsta verðinu

Eftir að markaðssetning íslensku flugleitarsíðunnar var send til danska neytendayfirvalda þá hefur fyrirtækið dregið úr loforðunum á forsíðu heimasíðu sinnar.

Loforðin um "besta" flugið og "lægsta" verðið var að finna á forsíðu Dohop á föstudag þegar þessi skjámynd var tekin. Nú er tónninn annar. Skjámynd: Dohop

„Finndu bestu flugin“ og „Dohop ber saman milljónir ferða og finnur lægsta verðið fyrir þig“ hefur staðið stórum stöfum á forsíðu heimasíðu Dohop. Um helgina var textanum breytt og efsta stig lýsingaorða ekki lengur notað. „Flugleit um allan heim“ segir núna fyrir ofan leitarvélina sjálfa og í stað loforðsins um lægsta verðið þá stendur í dag að Dohop muni reyna að finna lægsta verðið.

Ástæða þess að svona verulega hefur verið dregið úr væntingunum notenda Dohop er sú að fyrir helgi sendu dönsku neytendasamtökin Tænk markaðssetningu íslenska fyrirtækisins og tveggja annarra leitarvéla til neytendayfirvalda þar í landi. Niðurstaða könnunar Tænk leiddi í ljós að þau fargjöld sem Dohop fann voru í engu tilfella þau lægstu á markaðnum líkt og Túristi greindi frá.