Dönsk neytendasamtök klaga Dohop

Flugleit Dohop stendur ekki undir loforðinu um hún finni ódýrustu flugmiðana. Þetta sýnir könnun neytendasamtakanna Tænk og framkvæmdastjóri fyrirtækisins tekur undir gagnrýnina.

Skjámynd: Dohop

Umsvif íslensku flugleitarsíðunnar Dohop takmarkast ekki við Ísland því heimasíðu fyrirtækisins er að finna á fjöldamörgum tungumálum. Og á forsíðu íslensku og erlendu vefsíðnanna er fullyrt að Dohop leitarvélin finni lægsta verðið eða besta tilboðið. Undir þessu stendur leitarvélin hins vegar ekki samkvæmt athugun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Í umfjöllun á heimasíðu samtakanna segir að gerðar hafi verið 5 mismunandi leitir eftir flugmiðum með Dohop og í engu tilfella hafi leitarvélin fundið ódýrasta verðið sem í boði var. Tvær aðrar síður fá neikvæða umsögn hjá Tænk sem hefur vísað hinni meintu villandi markaðssetningu fyrirtækjanna þriggja til dönsku neytendastofunnar.

Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, segir í svari til Túrista, að þessi kvörtun hafi komið á óvart. Hann segist þó geta tekið undir að Dohop ætti í raun ekki að lofa því að finna lægsta verðið. „Það er eitthvað sem engin leitarvél getur staðið undir og við höfum nú þegar gert þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að fjarlægja þessa,“ segir Davíð.

Til marks um það þá er ekki lengur fullyrt á danskri heimasíðu Dohop að leitarvélin finni ódýrustu farmiðana en það loforð er þó ennþá að finna á öðrum heimasíðum fyrirtækisins samkvæmt athugun Túrista. Til að mynda segir á þeirri íslensku „Dohop ber saman milljónir ferða og finnur lægsta verðið fyrir þig.“

Til samanburðar má þess geta að Túristi framkvæmdi, líkt og Tænk, fimm ólíkar leitir á heimsíðu Dohop eftir beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli. Í fjórum tilfellum var ódýrara að bóka farmiðana beint á heimasíðu flugfélagsins sem best kom út úr leitinni. Í eitt skipti var hagstæðara að bóka af þeirri ferðaskrifstofu sem kom best út en þá var þjónustan takmarkaðri, t.d. varðandi afhendingu ferðagagna og borga þurfti fyrir val á sætum þó sú þjónustu sé innifalin þegar keypt er beint hjá viðkomandi flugfélagi.