Dýrt fyrir WOW að fljúga fólki ódýrt til Bandaríkjanna

Bandarísku borgunum í leiðakerfi WOW air fækkar um að minnsta kosti þrjár á næsta ári. Miðað við sætanýtingu og fargjöldin sem nú eru í boði er ljóst að þessi útgerð getur skilað umtalsverðu tapi.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Það voru forsvarsmönnum flugmála í St. Louis vonbrigði að stjórnendur WOW air hafi ákveðið að hætta áætlunarfluginu þangað þann 7. janúar næstkomandi. Í tilkynningu frá forsvarsfólki flugvallarins þar í borg segir að flugleiðin til St. Louis hafi verið ein sú vinsælasta af þeim sem WOW heldur úti til Miðvesturríkjanna. Auk St. Louis fljúga þotur WOW einnig til Chicago, Cincinnati, Cleveland og Detroit sem allar tilheyra þessum hluta Bandaríkjanna.

Jómfrúarferð WOW til St. Louis var farin um miðjan maí og um síðustu mánaðarmót höfðu um 28 þúsund farþegar nýtt sér áætlunarferðirnar samkvæmt svari flugvallarins þar í borg við fyrirspurn Túrista. Þar segir einnig að sætanýting í þessum ferðum WOW hafi verið um 75 prósent. Óhætt er að fullyrða að svo há nýting er oftar en ekki talin viðunandi hjá hefðbundnum flugfélögum fyrstu mánuðina á nýrri flugleið. Lággjaldaflugfélög þurfa hins vegar hærri nýtingu.

Farið út á morgun á 13 þúsund

St. Louis er þó ekki eina borgin sem dettur út af leiðakerfi WOW air á næsta ári. Félagið mun nefnilega ekki taka upp þráðinn í Cincinnati eða Cleveland en líkt og Túristi greindi frá í gær þá hefur ekki verið hægt að bóka sumarflug þangað með WOW á næsta ári. Svanhvít Friðriksdóttir, talskona WOW, staðfesti svo við USA Today, líkt og Vísir greindi frá, að síðustu ferðirnar til Cincinnati eða Cleveland yrðu farnar nú um mánaðarmótin. Og það er óhætt að segja að þeir sem stökkva til og bóka miða í þessar síðustu ferðir til borganna fái miðana ódýrt. Sérstaklega ef stefnan er sett á Cleveland því farmiði með WOW þangað á morgun kostar aðeins 12.999 krónur og líka á laugardag og heimferðin fæst á sama verði. Flugin út til Cincinnati eru dýrari en flugið þaðan til Íslands er álíka ódýrt og frá Cleveland.

Langt undir kostnaðarverði

Vanalega eru svona ódýrir farmiðar bara í boði fyrir þá sem bóka flug á stuttum flugleiðum með löngum fyrirvara. Það tekur hins vegar um 6 og hálfan klukkutíma að fljúga til Cleveland. Og miðað við þann einingakostnað sem WOW birti í tengslum við skuldabréfaútboð sitt nýverið þá kostar það félagið mun meira að fljúga farþega til Cleveland en 13 þúsund krónur. Kostnaðurinn nærri tvöfalt hærri eða um 28 þúsund krónur ef einingakostnaðurinn er umreiknaður miðað við hækkun á olíu og gengi dollars í dag. Miðað við einingakostnað ársins í fyrra þá hefur flugið til Cleveland kostað tæpar 23 þúsund krónur á hvert sæti. Þess ber þó að geta að þarna er miðað við heildareiningakostnað allra flugleiða WOW en kostnaðurinn er oftast lægri á lengri flugleiðum en hærri á þeim styttri.

Milljóna mínus

Tölurnar líta verr út ef nýtingin í flugi WOW til Cleveland er álíka og til St. Louis, þ.e. um 75%, því þá þarf að selja sætin ennþá dýrara. Það kostarWOW nefnilega um 5,6 milljónir að fljúga 200 sæta Airbus þotu til Cleveland og ef 3 af hverjum 4 sætum eru bókuð þá þurfa farþegarnir að jafnaði að borga nærri 37 þúsund krónur svo ferðin standi undir sér. 13 þúsund króna farmiðinn er því nærri á þreföldu undirverði. Þó ber að hafa í huga að í máli Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW, hefur komið fram að farþegar félagsins kaupi vanalega aukaþjónustu fyrir um 6.800 krónur (57 dollara) í hverja ferð. Það dregur þá úr tapinu sem er engu að síður töluvert þegar fargjöldin eru svona lág. Þannig gæti brottförin til Cleveland á morgun kostað eigandann 2,5 milljónir krónar ef meðalfargjaldið verður aðeins um 20 þúsund. Sem fyrr segir kostar farið núna 13 þúsund krónur.