Dýrt fyrir WOW að fljúga fólki ódýrt til Banda­ríkj­anna

Bandarísku borgunum í leiðakerfi WOW air fækkar um að minnsta kosti þrjár á næsta ári. Miðað við sætanýtingu og fargjöldin sem nú eru í boði er ljóst að þessi útgerð getur skilað umtalsverðu tapi.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air

Það voru forsvars­mönnum flug­mála í St. Louis vonbrigði að stjórn­endur WOW air hafi ákveðið að hætta áætl­un­ar­fluginu þangað þann 7. janúar næst­kom­andi. Í tilkynn­ingu frá forsvars­fólki flug­vall­arins þar í borg segir að flug­leiðin til St. Louis hafi verið ein sú vinsæl­asta af þeim sem WOW heldur úti til Miðvest­ur­ríkj­anna. Auk St. Louis fljúga þotur WOW einnig til Chicago, Cinc­innati, Cleve­land og Detroit sem allar tilheyra þessum hluta Banda­ríkj­anna.

Jómfrú­ar­ferð WOW til St. Louis var farin um miðjan maí og um síðustu mánað­armót höfðu um 28 þúsund farþegar nýtt sér áætl­un­ar­ferð­irnar samkvæmt svari flug­vall­arins þar í borg við fyrir­spurn Túrista. Þar segir einnig að sæta­nýting í þessum ferðum WOW hafi verið um 75 prósent. Óhætt er að full­yrða að svo há nýting er oftar en ekki talin viðun­andi hjá hefð­bundnum flug­fé­lögum fyrstu mánuðina á nýrri flug­leið. Lággjalda­flug­félög þurfa hins vegar hærri nýtingu.

Farið út á morgun á 13 þúsund

St. Louis er þó ekki eina borgin sem dettur út af leiða­kerfi WOW air á næsta ári. Félagið mun nefni­lega ekki taka upp þráðinn í Cinc­innati eða Cleve­land en líkt og Túristi greindi frá í gær þá hefur ekki verið hægt að bóka sumarflug þangað með WOW á næsta ári. Svan­hvít Frið­riks­dóttir, talskona WOW, stað­festi svo við USA Today, líkt og Vísir greindi frá, að síðustu ferð­irnar til Cinc­innati eða Cleve­land yrðu farnar nú um mánað­ar­mótin. Og það er óhætt að segja að þeir sem stökkva til og bóka miða í þessar síðustu ferðir til borg­anna fái miðana ódýrt. Sérstak­lega ef stefnan er sett á Cleve­land því farmiði með WOW þangað á morgun kostar aðeins 12.999 krónur og líka á laug­ardag og heim­ferðin fæst á sama verði. Flugin út til Cinc­innati eru dýrari en flugið þaðan til Íslands er álíka ódýrt og frá Cleve­land.

Langt undir kostn­að­ar­verði

Vana­lega eru svona ódýrir farmiðar bara í boði fyrir þá sem bóka flug á stuttum flug­leiðum með löngum fyrir­vara. Það tekur hins vegar um 6 og hálfan klukku­tíma að fljúga til Cleve­land. Og miðað við þann eininga­kostnað sem WOW birti í tengslum við skulda­bréfa­útboð sitt nýverið þá kostar það félagið mun meira að fljúga farþega til Cleve­land en 13 þúsund krónur. Kostn­að­urinn nærri tvöfalt hærri eða um 28 þúsund krónur ef eininga­kostn­að­urinn er umreikn­aður miðað við hækkun á olíu og gengi dollars í dag. Miðað við eininga­kostnað ársins í fyrra þá hefur flugið til Cleve­land kostað tæpar 23 þúsund krónur á hvert sæti. Þess ber þó að geta að þarna er miðað við heild­arein­inga­kostnað allra flug­leiða WOW en kostn­að­urinn er oftast lægri á lengri flug­leiðum en hærri á þeim styttri.

Milljóna mínus

Tölurnar líta verr út ef nýtingin í flugi WOW til Cleve­land er álíka og til St. Louis, þ.e. um 75%, því þá þarf að selja sætin ennþá dýrara. Það kost­arWOW nefni­lega um 5,6 millj­ónir að fljúga 200 sæta Airbus þotu til Cleve­land og ef 3 af hverjum 4 sætum eru bókuð þá þurfa farþeg­arnir að jafnaði að borga nærri 37 þúsund krónur svo ferðin standi undir sér. 13 þúsund króna farmiðinn er því nærri á þreföldu undir­verði. Þó ber að hafa í huga að í máli Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW, hefur komið fram að farþegar félagsins kaupi vana­lega auka­þjón­ustu fyrir um 6.800 krónur (57 dollara) í hverja ferð. Það dregur þá úr tapinu sem er engu að síður tölu­vert þegar fargjöldin eru svona lág. Þannig gæti brott­förin til Cleve­land á morgun kostað eigandann 2,5 millj­ónir krónar ef meðal­far­gjaldið verður aðeins um 20 þúsund. Sem fyrr segir kostar farið núna 13 þúsund krónur.