Fargjöldin ennþá á niðurleið

Fjölgun flugferða yfir Norður-Atlantshafið hefur neikvæð áhrif á verðþróunina hjá Norwegian. Það er vísbending um að sama sé upp á teningnum hjá Icelandair og WOW air.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Þotueldsneyti kostar meira en helmingi meira í dag en fyrir ári síðan og þrátt fyrir hversu þungt kaup á olíu vega í rekstri flugfélaga þá virðast fargjöldin ekki vera á uppleið. Alla vega ekki hjá Norwegian sem hefur, ásamt WOW air, leitt útrás evrópskra lággjaldaflugfélaga í áætlunarflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku. Í september lækkuðu meðalfargjöldin hjá Norwegian um þrjú prósent samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Þetta er vísbending um hver þróunn hefur verið hjá WOW og jafnvel Icelandair líka. Í mánaðarlegum uppgjörum íslensku félaganna er þó ekki að finna neinar upplýsingar um verðþróun öfugt við það sem tíðkast hjá skandinavísku flugfélögunum SAS og Norwegian.

Annað flugfélag sem var að hasla sér völl í lággjaldaflugi yfir Atlantshafið var Primera air. Flugfélagið sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar fór hins vegar í þrot í byrjun vikunnar. Í tilkynningu sem stjórn flugfélagsins sendi frá sér kom einmitt fram að fargjaldaþróunn hefði verið óhagstæð á sama tíma og olíuverð fór hækkandi.

Þess má geta að forsvarsmenn Norwegian hafa viðurkennt að þeir hafi verið of seinir til að verja sig gagnvart hækkunum á olíuverði. WOW air er ennþá óvarið en félagið mun vera leggja drög að breyttri stefnu í þeim málum.