Ferðamálastjóri: Áhugi á Íslandsferðum eða ódýrt Íslandsflug

Þó ferðafólki hafi fjölgað umfram spár í september þá er ekki víst að skýringuna sé að finna í öðru en lágum fargjöldum. Ef svo er þá er þróunin áhyggjuefni að mati ferðamálastjóra.

Ferðamenn við Námaskarð Mynd: Iceland.is

Í nýliðnum september innrituðu rúmlega 231 þúsund útlendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli en á þeirri tölu byggir ferðamannatalning Ferðamálastofu. Aukningin nam um 14% frá sama tíma í fyrra sem er hlutfallslega tvöfalt meiri viðbót en ferðamannaspá Isavia gerði ráð fyrir. Fjölgunin var jafnframt mun meiri en mælst hefur aðra mánuði ársins að maí undanskildum og Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segist hugsi yfir tölunum.

„Ég velti fyrir mér hvort óvenju lág fargjöld skýri þessa aukningu í september frekar en áhugi á Íslandsferðum. Það þekkist svo sem víða að lág fargjöld ráði áfangastað. Ef svo er þá er þessi þessi þróun áhyggjuefni og spurning hversu sjálfbær vöxturinn er,“ segir Skarphéðinn. Vísar hann til þess að það sé meira virði að fá hingað ferðamenn sem eru að láta draum um Íslandsreisu rætast í stað þeirra sem hafa stökkið á tilboð á flugi.

Það er heldur engum blöðum um það að fletta að fargjöld eru lág. Það hefur til að mynda endurtekið komið fram í máli forsvarsmanna Icelandair. Í tilkynningu sem eigandi Primera Air sendi frá sér, eftir gjaldþrot flugfélagsins í byrjun mánaðarins, var fargjaldaþróunin nefnd sem ein af ástæðum þess að illa fór. Forsvarsmenn norska flugfélagsins Norwegian eru líka komnir upp við vegg því síðustu daga hafa greinendur bent á að lausafjárstaða félagsins sé slæm. Norska félagið hefur einmitt rutt veginn fyrir lággjaldaflugfélög í áætlunarferðum yfir Norður-Atlantshaf. Nýjasta dæmið eru svo hræódýr sæti í Bandaríkaflug WOW air þar sem farmiðar næstu daga eru seldir umtalsvert undir kostnaðarverði jafnvel þó stutt sé í brottför.

Bandaríkjamenn komast því ódýrt til Íslands og undanfarin misseri hafa það verið þeir sem haldið hafa uppi aukningunni í fjölgun ferðamanna. Í september komu hingað 25 þúsund fleiri ferðamenn frá Bandaríkjunum en á sama tíma í fyrra og hlutfallslega nemur viðbótin 45%. Framboð á flugi til Bandaríkjanna hefur líka stóraukist á sama tíma og í nýliðnum september var flogið hingað frá 24 bandarískum borgum en þær voru 18 síðastliðið haust. Í ferðum talið þá jókst framboðið um fimmtung samkvæmt talningum Túrista.

Önnur vísbending um að útlendingar taki ákvörðun um Íslandsferð með stuttum fyrirvara er hin háa nýting á hótelum Icelandair í september. Ein af skýringunum á þeirri þróun er sú staðreynd að fólk bókar gistingu með styttri fyrirvara og allt niður í samdægurs á landsbyggðinni líkt og fram kom í viðtali Túrista við Hildi Ómarsdóttur hjá Icelandair hótelunum.