Ferðaskrifstofur Andra Más skipta um nafn

Heiti eiganda norrænu ferðaskrifstofanna sem tilheyrðu Primera Travel Group hefur verið breytt. Óljóst hvaða áhrif þetta hefur á eignarhaldið á Heimsferðum.

Samkvæmt línunni neðst á forsíðu heimasíðu TravelCo Nordic þá tilheyra Heimsferðir fyrirtækinu en ekki samkvæmt listanum sem birtist í efra horni hægra megin. Skjámynd: Travelco Nordic

Ferðaskrifstofurnar Bravo tours í Danmörku og Solresor í Svíþjóð eru hluti af Primera Travel Group sem Andri Már Ingólfsson á. Báðar tilheyrðu þær danska dótturfélaginu Primera Travel A/S en heiti þess fyrirtækis hefur núna verið breytt í TravelCo Nordic samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðum ferðaskrifstofanna. Þetta kemur einnig fram á nýrri heimasíðu TravelCo Nordic en sú var sett í loftið í vikunni. Í samtali við Túrista, segir Peder Hornshøj, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að tilgangurinn með nafnbreytingunni sé að aðgreina ferðaskrifstofunnar frá flugfélaginu, Primera air, sem varð gjaldþrota í þarsíðustu viku en tilheyrði áður fyrirtækjasamsteypu Andra Más. Ferðaskrifstofur Primera Travel Group í Noregi og Finnlandi eru líka sagðar dótturfyrirtæki hins nýnefnda danska fyrirtækis á heimasíðu þess.

Hornshøj vísar á Andra Má Ingólfsson varðandi þá spurningu hvort íslensku ferðaskrifstofunnar Heimsferðir og Terra Nova heyri líka undir TravelCo Nordic. Framsetning á því er nefnilega óskýr á nýju heimasíðunni eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Á einum stað eru Heimsferðir og Terra Nova ekki hluti af upptalningu á dótturfélögum TravelCo Nordic en svo koma nöfn þeirra fyrir annars staðar á síðunni. Andri Már, segir í svari við fyrirspurn Túrista, að fréttatilkynning um þessar breytingar verði send út á mánudag.

Líkt og Túristi greindi frá í fyrradag þá voru Heimsferðir í ábyrgð upp á nærri 1,7 milljarð króna fyrir Primera air. Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, segir þessa ábyrgð ekki lengur til staðar en hefur ekki svarað spurningunni um hvernig á því stendur.


Uppfært: Eins og fram kom í fréttinni þá var það ætlun Andra Más að senda út fréttatilkynning á mánudag um þetta mál. Hann flýtti því hins vegar eftir að Túristi spurði hann um stöðu mála.