Gray Line flytur umferðarmiðstöð að Skarfabakka

Gera ráð fyrir að aksturinn dragist saman um fjórðung við flutningin niður á höfn.

Hin nýja umferðarmiðstöð Gray Line niður við höfn. Mynd: Gray Line

Umferðarmiðstöð Gray Line hefur verið flutt að Skarfabakka, í húsnæði þjónustumiðstöðvar skemmtiferðaskipa og Icewear. „Skarfabakki hentar starfsemi Gray Line og viðskiptavinum mjög vel, er meira miðsvæðis en fyrri aðstaða við Holtagarða og býður upp á góða aðstöðu fyrir farþega og hópferðabíla. Ennfremur er stutt milli Skarfabakka og aðalstöðva Gray Line við Klettagarða,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að daglega sæki 10 til 15 smárútur Gray Line viðskiptavini á hótel og safnstæði sem flest eru nær Skarfabakka en fyrri staðsetning samgöngumiðstöðvarinnar. Með flutningnum gerir Gray Line ráð fyrir að dragi úr akstri innan borgarinnar um 25%.

„Með aukinni sjálfvirkni við innritun farþega og pappírslausum viðskiptum hefur húsnæðisþörf umferðarmiðstöðvar minnkað verulega. Flutningur umferðarmiðstöðvar Gray Line úr Holtagörðum hefur því staðið til í nokkurn tíma. Aðgengi og nálægð við farþega skiptir miklu máli, svo og að umhverfið sé aðlaðandi. Skarfabakki hentar því að öllu leyti mjög vel. Við horfum einnig til þess að staðsetning umferðamiðstöðvar má ekki hafa truflandi áhrif á íbúa þar sem hópferðabílar eru á ferð nánast allan sólarhringinn,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.