Heimsferðir semja við nýtt flugfélag

Primera air, systurfélag Heimsferða, er á leið í þrot og hefur ferðaskrifstofan náð samningum við tékkneskt flugfélag.

Tékkneska flugfélagið Smartwings mun frá og með morgundeginum sjá um flugferðir fyrir Heimsferðir. Mynd: Travel Service

Umsvif Primera air hér á landi hafa að mestu snúið að leiguflugi fyrir ferðaskrifstofur og þá aðallega Heimsferðir. En bæði flugfélagið og ferðaskrifstofan eru hluti af Primera Travel Group samstæðunni sem eru í eigu Andra Más Ingólfssonar. Fall Primera air mun þó ekki hafa áhrif á ferðir Heimsferða og annarra íslenskra ferðaskrifstofa sem áttu bókuð sæti fyrir farþega sína hjá flugfélaginu.

Ástæðan er sú að Heimsferðir hafa samið við flugfélagið Smartwings, sem tilheyrir tékkneska fyrirtækinu Travel Service, um flugferðir frá og með morgundeginum. Þess vegna verður engin breyting á flugáætlun ferðaskrifstofunnar í vetur og næsta sumar samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Heimsferðum.

Þar kemur líka fram að þeir farþegar Primera air sem höfðu bókað beint hjá flugfélaginu, en ekki hjá Heimsferðum, verði boðið flug til Íslands á morgun og miðvikudag. Réttur flugfarþega sem bóka flug eitt og sér er nefnilega mun takmarkaðri en þeirra sem bókað hafa flugið sem hluta af pakkaferð. Fyrrnefndi hópurinn á til að mynda ekki rétt á heimferð.