Hógvær vöxtur hjá Icelandair á næsta ári

Þó sex nýjar þotur bætist við flugflota Icelandair á næsta ári þá er viðbúið að umsvif flugfélagsins verði álíka og í ár.

Mynd: Icelandair

Stjórnendur Icelandair hafa boðað sókn síðustu haust þegar flugáætlun fyrir komandi ár hefur verið kynnt. Áætlun næsta árs liggur hins vegar ekki ennþá fyrir, líkt og Túristi fjallaði um í gær, en á fundi með fjárfestum í morgun sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að gert væri ráð fyrir hógværum vexti á milli ára. „Það er ýmislegt að gerast í umhverfinu sem við erum að fylgjast með áður en við tökum ákvörðun,“ bætti Bogi við.

Flugáætlun þessa árs var um 11% umfangsmeiri en áætlunin árið 2017 en til samanburðar þá hefur Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, boðað 15% aukningu í ár. Gangi þetta eftir þá er ljóst að bilið á milli Icelandair og WOW air, í flugferðum og farþegum talið, mun minnka umtalsvert á næsta ári. Icelandair tekur þó í notkun sex nýjar Boeing MAX þotur fyrir næsta sumar en sætafjöldinn í þeim er aðeins minni en í hinum hefðbundnu Boeing 757 þotum sem eru uppistaðan í flugflota fyrirtækisins. Að minnsta kosti þrjá þess háttar hverfa úr rekstri Icelandair á næstunni samkvæmt því sem fram kom í máli Boga í morgun.

Líkt og Icelandair tilkynnti í gær þá var hagnaðurinn af rekstrinum á þriðja ársfjórðungi töluvert lægri en á sama tíma í fyrra. Núna nam hagnaðurinn um 7,5 milljörðum króna og skýringuna á versnandi gangi er að aðallega að finna í hærra olíuverði, lægri meðalfargjöldum og lakari sætanýtingu samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Vegna þessa þá uppfyllir reksturinn ekki lengur þær kvaðir sem á fyrirtækinu hvíla gagnvart eigendum skuldabréfa í fyrirtækinu. Samningaviðræður standa nú yfir við handhafa bréfanna og hefur Icelandair óskað eftir formlegri undanþágu frá fjárhagslegum skilyrðum skuldabréfanna út nóvember. Tilgangurinn er að fá meiri tíma til að finna langtímalausn á málinu.