Icelandair seinkar komu sinni til Cleveland á næsta ári

Þrátt fyrir brotthvarf WOW þá mun Icelandair ekki bæta við ferðum til og frá Cleveland á næsta ári.

Frá Cleveland Mynd: Icelandair

Þegar þotur Icelandair og WOW air hófu að fljúga reglulega til Cleveland í vor var það í fyrsta sinn í nærri áratug sem íbúar bandarísku borgarinnar gátu flugið beint úr heimabyggð til Evrópu. Nú er ljóst að ekki verður framhald á ferðum WOW air því Cleveland er ein af þeim þremur borgum í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna sem duttu út af leiðakerfi félagsins í síðustu viku.

Icelandair ætlar hins vegar að halda áfram en þó í minna mæli en til stóð. Upphaflega áformuðu stjórnendur Icelandair að fljúga allt árið um kring til Hopkins flugvallar í Cleveland. Í september var hins  vegar tilkynnt að ferðirnar myndu leggjast af nú í lok október og þráðurinn yrði tekinn upp að nýju í mars. Nú er hins vegar ljóst að bið verður á fyrstu þotu ársins frá Íslandi fram í maí á næsta ári samkvæmt frétt Cleveland.com. Þar er haft eftir Michael Raucheisen, talsmanni Icelandair vestanhafs, að ætlunin sé að halda tryggð við Cleveland en að sætanýtingin sé ennþá ekki nógu góð á öðrum árstímum en yfir sumarmánuðina.

Brotthvarf WOW air frá Cleveland eftir aðeins nokkurra mánaða tilraun og niðurskurður Icelandair er sterk vísbending um að kapp, frekar en forsjá, hafi ráðið ferðinni þegar borginni var bætt við leiðakerfi flugfélaganna beggja. Alla vega er ljóst að þar er í dag ekki markaður fyrir bæði íslensku flugfélögin og hvað þá allt árið um kring. En vonandi hafa bæði Icelandair og WOW haft eitthvað upp úr sumarfluginu því af fargjöldunum að dæma þá er þotunum flogið þangað núna með tapi. Flugmiði með WOW til Cleveland, seinnipartinn í dag, kostar aðeins 15.499 og farið með Icelandair á morgun er á 27.585 krónur. Þessi fargjöld eru örugglega töluvert undir kostnaðarverði líkt og Túristi fjallaði um í síðustu viku. Það kostar nefnilega að lágmarki um 6 milljónir króna að senda þotur Icelandair og WOW til Hopkinsflugvallar og tekjur af hverju sæti verða því að vera töluvert hærri en farmiðarnir kosta í dag.