Icelandair þarf að endursemja um Paretoskuldabréfin

Þarsíðasta vetur seldi flugfélagið skuldabréf fyrir um 22 milljarða króna. Breytt staða flugfélagsins kallar á samningaviðræður við lánadrottna.

Mynd: Icelandair

Fyrir tveimur árum seldi Icelandair Group skuldabréf að fjárhæð 150 milljón dollara til fjárfesta. Upphæðin samsvarar 17,2 milljörðum íslenskra króna á þáverandi gengi og var fjármagnið nýtt sem fyrirframgreiðsla inn á nýjar flugvélar. Í febrúar 2017 seldi flugfélagið aukalega skuldabréf fyrir 4,5 milljarða króna (40 milljónir dollara) og samkvæmt tilkynningum þá voru vextirnir af báðum útgáfunum 3,5 prósent, ofan á þriggja mánaða LIBOR-vexti.

Það var norræna verðbréfafyrirtækið Pareto sem sá um útgáfu skuldabréfanna en það fyrirtæki hefur verið töluvert í fréttum undanfarið í tengslum við skuldabréfaútboð WOW air sem nú er nýlokið. Í því ferli vakti athygli að kynning á útboðinu var gerð opinber. Hvort það var gert með vilja eða fyrir slysni fæst ekki staðfest en vextirnir af skuldabréfum WOW voru 9% auk afsláttar á hlutabréfum í flugfélaginu.

Kjörin sem Icelandair fékk fyrir tveimur árum voru því miklu betri en þau gætu versnað á næstunni því félagið þarf nú að endursemja við eigendur skuldabréfanna. Ástæðan er sú að versnandi afkoma hefur þær afleiðingar að félagið stendur ekki lengur undir öllum skilmálum skuldabréfaútboðsins. Í tilkynningu frá Icelandair er bent á að stjórnendur þess séu nú að meta þá möguleika sem eru í stöðunni. Til að mynda að óska eftir tímabundinni undanþágu frá hinum fjárhagslegu kvöðum, breytingum á skilmálum skuldabréfanna eða uppgreiðslu skuldabréfanna að hluta eða uppgreiðslu annarra skulda. „Þrátt fyrir möguleika á því að kvaðir skuldabréfanna um hlutfall heildar vaxtaberandi skulda verði ekki uppfylltar þá nam handbært fé Icelandair Group 237 milljónum USD hinn 30. júní sl.“