Jólabjórinn kominn í Fríhöfnina en ekki Vínbúðirnar

Sala á jólabjór er hafin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verðið er í flestum tilfellum óbreytt frá því í fyrrra og hittifyrra.

Fyrstu 8 tegundirnar af jólabjór eru nú komnir í Fríhöfnina í Leifsstöð en sala í Vínbúðunum hefst ekki fyrr en 15.nóvember. Jólaölið stendur flugfarþegum því mun fyrr til boða en öðrum. Þeir sem eru á faraldsfæti borga líka minna fyrir bjórinn en hinir sem halda sig heima næstu vikur. Niðurstöður verðkannana Túrista síðustu tvö ár hafa nefnilega sýnt að almennt er verðið á bjórnum um þriðjungi lægra í Fríhöfninni en í Vínbúðunum. Það er reyndar mismunandi eftir tegundum.

Þeir sem eiga leið um Leifsstöð á næstunni geta tekið með sér kippur af jólaöli og sú ódýrasta, af þeim sem í boði er í dag, er Víking jólabjór en sex stórar dósir af þeirri tegund kosta 1.499 krónur. Það er sama verð og í fyrra. Egils Gull jólabjór er líka seldur í hálfs lítra dósum og sá kostaði það sama og Víking í fyrra og hittifyrra. Nú er kippan af Egils komin upp í 1.559 krónur. Af bjórunum í minni dósum og flöskum þá er Föroya jólabryggj ódýrastur eða á 1.399 krónur sem er hundrað krónum ódýrara en fyrir síðustu og þarsíðustu jól.

Hér er úrvalið af jólabjórum sem fáanlegir eru í Fríhöfninni í ár en síðustu ár hafa fleiri tegundir bæst við þegar líður að jólum.