Kröfurnar á Primera air komnar upp í rúma 16 milljarða

Um 500 fyrirtæki og einstaklingar hafa lýst kröfum í þrotabú flugfélags Andra Más Ingólfssonar.

Ein af Airbus þotum Primera air. Mynd: London Stansted

Á laugardag sendi Andri Már Ingólfsson frá sér fréttatilkynningu í flýti þar sem fram kom að Travelco, danskt félag í eigu hans sjálfs, hefði keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group. Það síðarnefnda er skráð hér á landi og er jafnframt í eigu Andra. Ástæðan fyrir þessum gjörningi skrifast á gjaldþrot Primera air sem Andri átti einnig. „Í kjölfar lokunar Primera Air, töpuðu ferðaskrifstofur Primera Travel Group háum fjárhæðum vegna fluga sem greidd höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flogin,“ sagði í tilkynningunni.

Það var þó ekki aðeins eigandinn og systurfélög Primera air sem tapa á falli flugfélagsins. Nú þegar eru kröfurnar í búið komnar upp í 16,4 milljarða samkvæmt frétt danska miðilsins Jyske Vestkysten. Eignir búsins eru metnar á um hálfan milljarð en fram kemur í fréttinni að endanlegar tölur um kröfur og eignir liggi ekki fyrir.

Flugrekstri Primera air var skipt milli danskra og lettneskra dótturfélaga og eiga ofannefndar tölur aðeins við um það þrotabú þess danska. Það staðfestir danskur skiptastjóri í svari til Túrista.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var óljóst hvort kröfurnar og eignir sem um ræðir eigi við um allan flugrekstur Primera air eða bara danska hlutann. Í svari skiptastjóra kemur fram að hér sé aðeins rætt um danska hlutann.