Niðurstaða í forstjóramál Icelandair á næstu vikum

Það skýrist á næstunni hver tekur við stjórnartaumum hjá Icelandair samstæðunni.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Nú eru liðnir 2 mánuðir síðan Björgólfur Jóhannsson sagði starfi sínu lausu sem forstjóri Icelandair Group. Í kjölfarið sendi stjórn fyrirtækisins frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að leitað hafi verið til Capacent á Íslandi og alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis til að hafa umsjón með ráðningarferli á nýjum forstjóra félagsins. „Það er mikilvægt að vel takist til við ráðningu forstjóra félagsins. Staða þess er sterk en jafnframt krefjandi og við teljum það mjög spennandi verkefni að taka við stjórnartaumum félagsins á þessum tímapunkti. Með því að nýta okkur sérþekkingu og tengslanet erlendra og innlendra aðila vonumst við til þess að geta valið úr hópi framúrskarandi einstaklinga til þess að leiða félagið til framtíðar,“ var haft eftir Úlfari Steindórssyni, stjórnarformanni, í tilkynningunni.

Síðan þá hafa engar fréttir borist af gangi mála en í bréfi sem Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, sendi starfsfólki fyrirtækisins í gær kemur fram að unnið sé að ráðningu forstjóra samkvæmt því ferli sem lagt var upp með. „Sú vinna er á áætlun og má vænta niðurstöðu á næstu vikum,“ segir Bogi Nils í bréfinu.

Sem fyrr segir eru nú tveir mánuðir frá því að Björgólfur lét af starfi sínu og það er ekki óalgengt að það taki tíma að finna nýja forstjóra í fluggeiranum. Núverandi forstjóri SAS tók til að mynda við rúmu hálfu ári eftir að forveri hans hætti. Og um áramótin fær starfsfólk Finnair nýjan forstjóra en þá verða liðnir sjö mánuðir frá því að sá sem gengdi starfinu á undan tilkynnti um afsögn sína.