Segja íslenskt fyrirtæki sitja á mikilvægum gögnum um Primera air

Það er ekki nóg með litlar eignir finnist í þrotabúi danska hluta Primera air. Skiptastjórarnir komast ekki yfir upplýsingar um rekstur flugfélagsins þar sem íslenskt fyritæki neitar að láta þær af hendi nema gömul skuld verði gerð upp.

Ein af þotum Primera air. Mynd: London Stansted

Þrotabú Primera air, flugfélags Andra Más Ingólfssonar, er á margan hátt óvenjulegt að mati skiptastjórans Henrik Sjørslev. Hann bendir á að nánast engar eignir hafi fundist, flugfélagið hafi ekki verið með neina stjórnendur í Danmörku og næstum engar viðskiptaupplýsingar eru fáanlegar. Síðastnefnda atriðið mun skrifast á stjórnendur íslensks upplýsingatæknifyrirtækis sem neita að veita aðgang að hýsingu Primera air fyrr en búið er að greiða gamla reikninga. Þetta kemur fram í frétt danska ferðamiðilsins Standby.

Þar segir jafnframt að þetta ónefnda íslenska fyrirtæki hafi þó einhverjar greiðslur fengið því nýverið sendi það flugvélaleigunum, sem áttu flugflota Primera air, upplýsingar sem nýttar voru til koma þotunum á ný í hendur eigendanna.

Flækjustigið í rekstri Primera air gerir svo verkefni dönsku bústjóranna ekki auðveldara. Primera air var nefnilega í eigu eins af móðurfélögum Andra Más Ingólfssonar sem skráð er hér á landi. Flugrekstrinum var hins vega deilt á milli dansks og lettnesks dótturfélags og í Lettlandi mun vinna við að greiða úr flækjunni skammt á veg komin.

Framkvæmdastjóri danska Primera air var Hrafn Þorgeirsson en stjórnin var skipuð þeim Andra, Sveini Ragnarssyni og Peder Hornshøj en sá er jafnframt framkvæmdastjóri dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours sem tilheyrir líka samstæðu Andra. Skiptastjóri Primera air segir ekki útilokað að gerði verði krafa á fyrrum stjórnendur flugfélagsins vegna gjörninga sem kunna að hafa verið gerðir þegar ljóst var að gjaldþrot væri óumflýjanlegt.  Forsenda fyrir þess háttar kröfu er að fá aðgang að fyrrnefndum gögnum frá Íslandi.

Þess má geta að Andri og Sveinn sátu jafnframt í stjórn Primera air á Íslandi ásamt Tómasi J. Gestssyni, framkvæmdastjóra, Heimsferða. En líkt og Túristi greindi frá, daginn fyrir gjaldþrot flugfélagsins, þá var það metið verðlaust í bókum móðurfélagsins PH Holding. Gera má ráð fyrir að tjón Isavia, vegna falls Primera air, nemi nokkrum tugum milljóna og samkvæmt tilkynningu frá Arion þá tapar bankinn allt að 1,8 milljarði á gjaldþrotinu.