Segja Primera air á leið í þrot í nótt

Orðrómur er uppi um að flugfélag Andra Más Ingólfssonar muni hætta starfsemi innan fárra klukkustunda.

Mynd: Primera air

Flugfélagið Primera air sem tilheyrir Primera Travel Group er á leið í gjaldþrot samkvæmt frétt á belgíska ferðavefnum Aviation 24. Þar er vísað í brot úr bréfi sem starfsmenn flugfélagins eiga að hafa fengið í dag. Í bréfinu er rekstrarstöðvun boðuð á morgun. Rétt er árétta að þessi frétt hefur ekki fengist staðfest hjá forsvarsfólki Primera air.

Orðrómur hefur verið uppi um slæma stöðu Primera air en líkt og Túristi greindi frá í gær þá er flugfélagið metið verðlaust í ársreikningi eignarhaldsfélagsins PA Holding.

Stuttu eftir birtingu fréttarinnar sendu forsvarsmenn Primera Air frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest var að stjórn þess myndi fara fram á greiðslustöðvun í fyrramálið.