Síðustu flugferðirnar til Ísrael

Í lok þessa mánaðar fer WOW air sína síðustu ferð til Tel Aviv.

Frá Tel Aviv Mynd: WOW air

Fyrstu átta mánuði ársins hefur gistinóttum Ísraela fjölgað um nærri þriðjung á íslenskum hótelum. Óhætt er að fyllyrða að meginskýringin á þessari jákvæðu þróun er áætlunarflug WOW air til Tel Aviv sem hófst um miðjan september í fyrra. Stjórnendur WOW air  flugfélagsins ætla hins vegar að láta gott heita nú í lok mánaðar. Þar með leggjast af beinar flugsamgöngur milli Íslands og Ísrael.

Verðið á farmiðunum í þessar fáu brottfarir sem eftir eru er mjög misjafnt en lægst er það í ferðina 20. október eða tæpar 26 þúsund kr. Heimferðin þann 24. október kostar það saman og því má komast héðan til Tel Aviv og heim aftur fyrir 52 þúsund krónur en þá fylgir ekki farangur.

WOW air er ekki eina norræna flugfélagið sem hverfur frá Ben Gurion flugvelli í Tel Aviv. Þannig lagði SAS lagði niður flug sitt til þangað fyrir tveimur árum síðan og ástæðan var sögð hár kostnaður enda eru gerðar strangar öryggiskröfur í flugi til og frá Ísrael.