Skilja Icelandair eftir eitt í Stokkhólmi

Um næstu mánaðarmót gerir WOW hlé á flugi sínu til höfuðborgar Svíþjóðar. Forsvarsmenn Norwegian hafa ákveðið að hætta öllu Íslandsflugi þaðan.

STOKKHÓLMUR. Mynd: Henrik Trygg/Visit Stockholm

Það er löng hefð fyrir tíðum flugsamgöngum milli Íslands og skandinavísku höfuðborganna. Héðan fljúga í dag þrjú flugfélög allt árið um kring til Kaupmannahafnar og Óslóar. Svo mikil hefur samkeppnin einnig verið í flugi héðan til Stokkhólms en þó aðeins undanfarna mánuði því það var fyrst nú í vor sem Norwegian hóf að fljúga hingað frá Arlanda flugvelli. Eftirspurnin eftir þessari flugleið reyndist hins vegar lítil hjá farþegum flugfélagsins og ferðunum verður því  hætt í byrjun janúar. Þetta kemur fram í svari Norwegian við fyrirspurn Túrista.

Þotur Norwegian hafa aðeins flogið hingað tvisvar í viku frá Stokkhólmi á meðan Icelandair býður upp á eina til þrjár ferðir á dag til borgarinnar og WOW air er með fjórar ferðir í viku. WOW mun hins vegar gera hlé á áætlunarferðunum til borgarinnar frá byrjun næsta mánaðar og fram á vor.

Þar með verður Icelandair eina flugfélagið með reglulegar ferðir milli Íslands og Svíþjóðar en auk ferðanna til Stokkhólms þá býður Icelandair líka upp á reglulegt flug til Gautaborgar yfir sumarmánuðina.