Snúa aftur til Keflavíkurflugvallar næsta sumar

Fyrsta vertíð bandaríska flugfélagsins United Airlines er senn á enda. Stjórnendur flugfélagsins hafa tekið ákvörðun um að taka upp þráðinn í júní.

Þotur United Airlines munu fljúga á milli Íslands og New York næsta sumar. Mynd: United Airlines

Farþegar á leið milli Íslands og New York hafa frá því í vor getað valið á milli ferða fjögurra flugfélaga en í lok mánaðar gerir United Airlines hlé á flugi sínu til Keflavíkurflugvallar. Þotur félagsins munu svo sjást á ný við Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá og með 7. júní á næsta ári. Þetta staðfestir Gudrun Gorner, talskona flugfélagsins, í svari til Túrista.

Þar með er ljóst að bæði American Airlines og United Airlines taka upp þráðinn í Íslandsflugi sínu næsta sumar en bæði spreyttu sig í fyrsta sinn á Íslandsflugi nú í sumar. Keflavíkurflugvöllur er eina norræna flughöfnin sem hluti að leiðakerfi þriggja stærstu flugfélaga Bandaríkjanna, þ.e. American Airlines, Delta og United Airlines.