Spáir gjaldþroti skandinavísks flugfélags

Forstjóri Ryanair sparar ekki stóru orðin þó flugfélagið hans skili nú lakari afkomu og eigi í vinnudeilum á víð og dreif um Evrópu.

Michael O'Leary forstjóri Ryanair. Myndir: Ryanair

Hagnaður af rekstri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, drógst saman um 7 prósent á fyrri helmingi ársins. Skrifast þessi versnandi staða á hærri laun, tíð verkföll, auknar bótagreiðslur til farþegar, lægri fargjöld og hækkandi olíuverð samkvæmt því sem fram kemur í kynningu á uppgjörinu nú í morgun. Hinn yfirlýsingaglaði forstjóri flugfélagsins, Micheal O’Leary, segist þó sannfærður um að róðurinn sé almennt að þyngjast hjá evrópskum flugfélögum og sumstaðar það mikið að það endi með gjaldþroti. Nefnir hann Norwegian og SAS, tvö stærstu flugfélög Norðurlanda, sem dæmi um félög sem gætu ekki komist í gegnum veturinn. Þetta er ekki í fyrsta sinn semO’Leary spáir því að Norwegian fari á hausinn en það eru nokkur ár liðin frá því að hann gaf síðast út dánarvottorð á SAS.

Í viðtali við Bloomberg segist O´Leary telja að framundan séu fjögur til fimm mögur ár í evrópskum flugrekstri. Ástæðan er hátt verð á þotueldsneyti, hækkandi vextir og sterkari dollar. Þar með sé óumflýjanlegt að fleiri flugfélög fari í þrot á næstunni og vísar írski forstjórinn þá meðal annars til falls Primera Air sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar.