Samfélagsmiðlar

Spyr um skuldir flugfélaga við Isavia

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, óskar eftir upplýsingum um þá áhættu sem Isavia tekur varðandi ógreidd farþega- og lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli.

Farþegaþota tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli.

Þó Primera air hafi aðeins staðið undir um einni af hverjum hundrað brottförum frá Keflavíkurflugvelli þá má gera ráð fyrir að tjón Isavia, vegna gjaldþrot flugfélagsins, sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar, nemi mörgum tugum milljóna króna. Tjónið af falli Airberlin í fyrra var líklega minna enda kyrrsettu stjórnendur Isavia þotu Airberlin á Keflavíkurflugvelli þangað til að skuldin var greidd. Gera má ráð fyrir að Airberlin hafi skuldað lendingagjöld víðar en hér á landi en flugvallaryfirvöld annars staðar virðast ekki telja sig hafa heimild til að kyrrsetja flugvélar líkt og gert er hér á landi. Isavia greip líka til þessa ráðs til að fá upp í ógreidda reikninga Iceland Express um árið. Ekki tókst þó stjórnendum Keflavíkurflugvallar að ná þotu Primera air áður en félagið fór í þrot í byrjun þessa mánaðar og situr Isavia þar með upp með fyrrnefnt tjón.

Skuldastaðan aftur til 2013

Hver ástæðan er fyrir því að flugfélög geta safnað upp það hárri skuld að kyrrsetja þarf þotur hefur ekki fengist svar við hjá Isavia. Í síðustu viku lagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, hins vegar fram fyrirspurn til samgönguráðherra þar sem spurt er um gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli líkt og Miðjan greindi frá. Óskar þingmaðurinn upplýsinga um hvaða reglur gilda í þeim tilvikum sem einstök flugfélög borga ekki þau gjöld sem þeir ber að greiða á flugvöllum landsins. Einnig er spurt hvort dráttarvextir séu reiknaðir, hvaða sektarúrræðum beitt og um jafnræði milli flugfélaga hvað þessi mál varðar. Samgönguráðherra er jafnframt beðinn um upplýsingar um skuldir einstakra flugfélaga allt frá árinu 2013 og hversu stór hluti skuldanna var kominn fram yfir gjalddaga.

Aðspurður um ástæður þessarar fyrirspurnar þá segir Jón Steindór, í svari til Túrista, að hún sé lögð fram vegna umræðu um erfiðleika í flugrekstri. „Nægir auðvitað að benda á gjaldþrot Primera, umræður um Norwegian og fleiri flugfélög. Íslensku flugfélögin hafa ekki verið undanskilin í þeirri umræðu. Isavia er fyrirtæki í opinberri eigu sem hefur mikil umsvif og á í miklum viðskiptum við tugi flugfélaga, eðli málsins samkvæmt. Það er nauðsynlegt að vita hvaða áhætta er tekin í þeim rekstri í samskiptum við flugfélög, hvaða reglur gilda og hvort jafnræðis er gætt milli flugfélaga,“ segir Jón Steindór

Hundruðir milljóna á mánuði

Líkt og Túristi greindi frá um daginn þá nema lendinga- og farþegagjöld Icelandair og WOW air á Keflavíkurflugvelli hundruðum milljóna í hverjum mánuði. Upphæðirnar eru því umtalsverðar og var fullyrt í frétt Morgunblaðsins í síðasta mánuði að skuld WOW við Isavia væri um tveir milljarðar króna. Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW, vísaði fréttinni samdægurs á bug og sagði í færslu á Facebook að flugfélagið skuldaði ekki yfir 2 milljarða. Eftir stendur þó vafinn hvort skuldin hafi verið undir tveimur milljarðum króna. Því hefur forsvarsfólk Isavia og WOW air ekki viljað svara. Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður WOW, staðfesti þó við Túrista að hann þekkti til skuldar flugfélagsins við Keflavíkurflugvöll.

Samgönguráðherra gæti varpað ljósi á ógreidd gjöld á Keflavíkurflugvelli þegar hann svarar fyrrnefndri fyrirspurn þingmanns Viðreisnar. Sá flokkur á ekki fulltrúa í stjórn Isavia en í henni eiga sæti fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja ásamt fulltrúum Pírata og Miðflokksins.

Þó rekstur flugvalla sé jafnframt í höndum opinberra fyrirækja í löndunum í kringum okkur eru stjórnir þeirra fyrirtækja ekki skipaðar pólítískt líkt og gert er hér á landi. Þess má geta að Matthías Imsland, varaformaður stjórnar Isavia, er samflokksmaður samgönguráðherra og hann er einnig einn af stofnendum WOW air. Skiptar skoðanir eru meðal þingmanna flokkanna á Alþingi um þau hagsmunatengsl, líkt og Túristi greindi frá, en Matthías telur sig þó ekki þurfa að víkja af stjórnarfundum þar sem málefni WOW eru til umræðu.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …