Swiss ætlar ekki að hefja Íslandsflug frá Sviss

Svissneskir ferðamenn eyða mestu þegar þeir ferðast um landið þegar litið er til kortaveltu útlendinga hér á landi. Stærsta flugfélag Svisslendinga setur þó ekki stefnuna á Ísland.

Mynd: SWISS

Fyrir fjórum árum síðan hóf easyJet að fljúga til Íslands yfir vetrarmánuðina frá bæði Basel og Genf. Áður höfðu flugsamgöngur milli Íslands og Sviss takmarkast við sumarferðir íslensku flugfélaganna. Með áætlunarflugi easyJet þrefaldaðist fjöldi vetrarferðamanna frá Sviss, fór úr rúmum 1600 Svisslendingum í nærri 4800. Sú aukning var vafalítið kærkomin því samantektir Rannsóknarseturs verslunarinnar hafa endurtekið sýnt að meðaleyðsla svissneskra ferðamanna er meiri en annarra þjóða þegar litið er til kreditkortaveltu.

Þessi aukni áhugi Svisslendinga á að fljúga til Íslands var þó ekki nægur fyrir stjórnendur easyJet. Veturinn á eftir skáru þeir niður vetrarflugið frá Genf og drógu úr ferðunum frá Basel. Afleiðingin var sú að fjöldi svissneskra ferðamanna fór niður um 28 prósent þann veturinn. Síðustu tvo vetur hefur fjöldinn farið upp á við á ný og munar þar um að nú flýgur Icelandair allt árið til Zurich.

Í ljósi þess hve mikil lyftistöng það var fyrir íslenska ferðaþjónustu þegar easyJet hóf vetrarflug hingað frá Sviss þá má gera ráð fyrir að tilkoma Swiss, stærsta flugfélagsins þar í landi, inn á íslenska markaðinn myndi fjölga hinum verðmætu svissnesku ferðamönnum hér ennþá meira. Á því verður þó einhver bið því samkvæmt svari Stefan Visic, talsmanni Swiss, þá er félagið sífellt að skoða nýjar flugleiðir en áætlunarflug til Íslands er þó ekki í kortunum.

Swiss er hluti af Lufthansa Group en líkt og Túristi greindi frá nýverið þá hefur Eurowings, eitt af flugfélögunum samsteypunnar, hætt við að fljúga hingað frá Köln í sumar. Og útlit er fyrir að umsvif hins þýska Lufthansa á Keflavíkurflugvelli verði í föstum skorðum.