Taka aftur upp þráðinn í Tel Aviv

WOW air ætlar að hefja flug til Ísrael á ný á næsta ári.

Frá Tel Aviv Mynd: WOW air

Í lok október eru síðustu ferðir WOW air til Tel Aviv á dagskrá. Útlit var fyrir að ferðunum yrði ekki haldið áfram en í gær sagði Viðskiptablaðið frá því að ísraelskir fjölmiðlar hefur greint frá því að íslenska flugfélagið væri væntanlegt þangað til lands á ný í vor. Þá frétt staðfesti WOW í morgun þegar félagið sendi frá sér tilkynningu þar sem segir að þann 11. júní muni áætlunarflugið hefjast á ný. Í boði verða fjórar ferðir í viku fram í lok október á næsta ári.

„Við erum ánægð með að geta hafið flug til Ísrael að nýju. Við finnum fyrir miklum áhuga á flugleiðinni. Bæði hafa Ísraelar mikinn áhuga á að heimsækja Ísland auk þess sem tengingin við Norður-Ameríku undirstrikar okkar sérstöðu á markaðnum,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air, í tilkynningunni.

Líkt og Túristi greindi frá í morgun þá tilkynntu flugmálayfirvöld í St Louis í gær að stjórnendur WOW hefðu ákveðið að hætta flugi til borgarinnar. Ekki hefur það fengist staðfest hjá upplýsingafulltrúa WOW en miðað við verðlagningu á flugferðum WOW til borgarinnar frá og með 8. janúar þá hefur félagið hætt sölu á flugi til borgarinnar. Ódýrustu miðarnir eru nefnilega núna á nærri 130 þúsund krónur, aðra leiðina.