Samfélagsmiðlar

Telur forsvarsmenn Isavia þurfa að segja af sér

Hið umdeilda og háa gjald á rútustæðunum við Leifsstöð er ennþá á borði samkeppnisyfirvalda. Stjórnarformaður Gray Line telur það fullvíst að Isavia fái þunga sekt og að tekjur opinbera fyrirtækisins af gjaldtökunni hafi nú þegar skipt milljónum króna.

airportexpress

Þegar norskur rútubílstjóri sækir farþega á Óslóarflugvöll þá fær hann að keyra upp að anddyri flugstöðvarinnar og stoppa þar í korter. Fyrir þetta greiðir bílstjórinn upphæð sem jafngildir um 1200 íslenskum krónum. Ferðaþjónustufyrirtæki sem sækja erlenda ferðamenn út á Keflavíkurflugvöll þurfa hins vegar að láta rútur sínar bíða á stæði sem er nokkuð hundruð metra frá Leifsstöð. Þrátt fyrir fjarlægðina er bílastæðagjaldið þar allt að sextán sinnum hærra en beint fyrir framan norsku flugstöðina.

Íslenska gjaldið er nefnilega 7.900 til 19.900 krónur en það hefur reyndar ennþá ekki verið lagt á eins og til stóð 1. mars síðastliðinn. Þá átti að hefjast gjaldtaka á þessu rútustæði, sem meðal annars Strætó hefur nýtt, en vegna þeirrar gagnrýni sem hið háa gjald fékk þá var sett á aðlögunargjald fram til 1. september. Í millitíðinni felldi hins vegar Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaúrskurð og í kjölfarið var gjaldtakan stöðvuð tímabundið. Isavia kærði þá niðurstöðu en í vikunni birti áfrýjunarnefnd samkeppnismála sitt álit og þar segir að ekki skuli fella úr gildi fyrrnefnda bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Kostnaðarsamur slagur

Það var ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line sem kærði málið á sínum tíma til samkeppnisyfirvalda og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, er harðorður í garð rekstraraðila Keflavíkurflugvallar. „Ég tel enga spurningu að Isavia á eftir að fá þunga sekt fyrir þetta athæfi og klárt að forsvarsmenn fyrirtækisins verða að segja af sér fyrir að valda því tjóni og álitshnekki,“ segir Þórir. Hann segir kostnað vegna málarekstursins kominn í 4,5 milljónir króna auk þeirra vinnu sem starfsmenn Gray Line hafa lagt í málið. „Þetta er beint tjón okkar og alveg fáheyrt að einkafyrirtæki skuli þurfa að standa í kostnaðarsömum slag við gráðugt ríkisfyrirtæki sem virðist ekki hika við að brjóta lög í skjóli einokunarstöðu.“

Til viðbótar við kostnað við kærur og málarekstur þá þurfti Gray Line, líkt og önnur ferðaþjónustufyrirtæki, að greiða fyrir afnot af stæðinu umtalaða frá byrjun mars og fram á mitt sumar. Þórir telur að tekjur Isavia á því tímabili hafa numið milljónum króna og hefur Gray Line farið fram á endurgreiðslu á sínum hluta og einnig neitað að greiða þá reikninga sem voru ógreiddir, en ekki gjaldfallnir, þegar úrskurður Samkeppniseftirlitsins var stöðvaður. „Isavia var okkur ekki sammála og hefur krafist greiðslu á útgefnum reikningum og neitað að endurgreiða meinta ólöglega innheimtu frá 1. mars. Þar er málið statt í dag og búast má við að harka færist í það á næstunni.“

Boða sáttatillögur

Á miðvikudaginn sendi Isavia frá sér tilkynningu í kjölfar þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála var birtur. Þar er haft eftir Hlyni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs Isavia, að fyrirtækið muni una þessari niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og vinna að því að ná sátt á meðan Samkeppniseftirlitið lýkur sinni málsmeðferð vegna gjaldtökunnar.“ Ekki er farið út í um hvað þær sáttatillögur snúast en Isavia túlkar niðurstöður eftirlitsins á þann veg að fyrirtækinu sé skylt að innheimta gjald. Þórir telur þetta vera ofúlkun og bendir á að í úrskurðinum standi aðeins að það sé á valdi Isavia að innheimta gjald í ljósi stöðunnar sem komin er upp.

Í því samhengi er vert að rifja upp að hina umdeildu gjaldtöku á rútustæðunum má rekja rúmt ár aftur í tímann þegar Isavia bauð út einkarétt á notkun stæðanna beint fyrir framan Leifsstöð. Þar buðu fyrirtækin Kynnisferðir og Hópbílar best og tekjur Isavia af þeim stæðum hafa hækkað verulega í framhaldinu. Verðið að farmiðunum sömuleiðis en líkt og Túristi fjallaði um í lok sumars þá eru vísbendingar um að framboð á sætaferðum sé of mikið. Rúturnar keyra því reglulega hálftómar eftir Reykjanesbrautinni.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …