Troll tours í gjaldþrot

Sala á Íslandsferðum var stór hluti af rekstri þýsku ferðaskrifstofunnar en rekstur hennar hefur verið stöðvaður.

Curren Podlesny
Mynd: Curren Podlesny / Unsplash

Þýska ferðakrifstofan Troll tours hefur síðustu tvo áratugi haft á boðstólum Íslandsreisur og skipulagt ferðir hingað fyrir fjöldamarga Þjóðverja ár hvert. Svo verður ekki á næsta ári því fyrirtækið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hallgrímur Lárusson, hjá Snæland-Grímsson, segir að Troll tours hafi verið einn af stærstu viðskiptavinum fyrirtækisins fyrir nokkrum árum síðan en viðskiptin hafi verið lítil undanfarin ár. „Ég held að erfileikar við sölu á Íslandferðum séu ein helsta ástæðan fyrir þessum örlögum Troll tours.“

Í sumar fækkaði þýskum ferðamönnum hér á landi um um 23 prósent sem nemur nærri 18 þúsund einstaklingum. Túristi hefur áður sagt frá því að þýska flugfélagið Eurowings ætlar að draga úr flugi hingað til lands næsta sumar en aftur á móti er útlit fyrir þónokkra viðbót í Þýskalandsflugi Icelandair.