Vantar 88 millj­ónir inn á banka­reikning Primera air

Lögmennirnir þrír sem skipaðir voru bústjórar yfir þrotabúi Primera air Scandinavia segjast aðeins finna lítinn hlut af þeim eignum sem stjórnendur félagsins gáfu upp.

Mynd: Primera Air

Þegar Primera air, flug­félag Andra Más Ingólfs­sonar, varð gjald­þrota um mánað­ar­mótin fengu bústjórar fyrir­tæk­isins í Danmörku þær upplýs­ingar að inn á banka­reikn­ingi þess væru um 93 millj­ónir íslenskra króna (5,1 milljón danskar kr.). Ekki reyndist inni­stæða fyrir því þar sem aðeins hafa fundist 4,5 millj­ónir króna (250 þús. danskar kr.) inn á reikn­ingum flug­fé­lagsins.

Stjórn­endur Primera air höfðu jafn­framt sagt fyrir­tækið eiga eignir upp á um 27 millj­ónir króna en það reyndist ekki heldur rétt. Aðeins fannst einn bíll og hefur hann nú verið seldur fyrir rétt um 2,7 millj­ónir samkvæmt frétt Jyll­ands Vest­kysten. Þar er rætt við einn af þremur bústjórum Primera air og segir hann vinnu við uppgjör þrota­búsins vera nærri sjálf­hætt þar sem engir peningar eru til.

Það vantar nefni­lega ekki bara fé til að mæta öllum þeim kröfum sem gerðar hafa verið í búið heldur líka til að standa straum af vinnu bústjór­anna. „Núna erum við í raun­inni að vinna frítt og það eru ekki margir lögfræð­ingar til í þess háttar,” segir Morten Hans Jakobsen bústjóri í viðtali við Jyll­ands Vest­kysten.

Eins og áður hefur komið fram þá nema kröf­urnar í þrotabú Primera air í Danmörku rúmum 16 millj­örðum króna. Hver staðan er á þrotabúi Primera air í Lett­landi liggur ekki fyrir.

Sem fyrr segir var Primera air í eigu Andra Más Ingólfs­sonar og tilheyrði flug­fé­lagið Primera Travel Group. Eftir gjald­þrotið færði Andri hins vegar eign­ar­haldið á ferða­skrif­stof­unum, sem tilheyrðu samstæð­unni, frá íslensku móður­fé­lagi yfir í danskt dótt­ur­félag.