Vantar 88 milljónir inn á bankareikning Primera air

Lögmennirnir þrír sem skipaðir voru bústjórar yfir þrotabúi Primera air Scandinavia segjast aðeins finna lítinn hlut af þeim eignum sem stjórnendur félagsins gáfu upp.

Mynd: Primera Air

Þegar Primera air, flugfélag Andra Más Ingólfssonar, varð gjaldþrota um mánaðarmótin fengu bústjórar fyrirtækisins í Danmörku þær upplýsingar að inn á bankareikningi þess væru um 93 milljónir íslenskra króna (5,1 milljón danskar kr.). Ekki reyndist innistæða fyrir því þar sem aðeins hafa fundist 4,5 milljónir króna (250 þús. danskar kr.) inn á reikningum flugfélagsins.

Stjórnendur Primera air höfðu jafnframt sagt fyrirtækið eiga eignir upp á um 27 milljónir króna en það reyndist ekki heldur rétt. Aðeins fannst einn bíll og hefur hann nú verið seldur fyrir rétt um 2,7 milljónir samkvæmt frétt Jyllands Vestkysten. Þar er rætt við einn af þremur bústjórum Primera air og segir hann vinnu við uppgjör þrotabúsins vera nærri sjálfhætt þar sem engir peningar eru til.

Það vantar nefnilega ekki bara fé til að mæta öllum þeim kröfum sem gerðar hafa verið í búið heldur líka til að standa straum af vinnu bústjóranna. „Núna erum við í rauninni að vinna frítt og það eru ekki margir lögfræðingar til í þess háttar,“ segir Morten Hans Jakobsen bústjóri í viðtali við Jyllands Vestkysten.

Eins og áður hefur komið fram þá nema kröfurnar í þrotabú Primera air í Danmörku rúmum 16 milljörðum króna. Hver staðan er á þrotabúi Primera air í Lettlandi liggur ekki fyrir.

Sem fyrr segir var Primera air í eigu Andra Más Ingólfssonar og tilheyrði flugfélagið Primera Travel Group. Eftir gjaldþrotið færði Andri hins vegar eignarhaldið á ferðaskrifstofunum, sem tilheyrðu samstæðunni, frá íslensku móðurfélagi yfir í danskt dótturfélag.