Vill skammta Norðmönnum flugferðir

Markmiðið með flugskattinum í Noregi er að draga úr flugumferð. Einn af þingmönnum Vinstriflokksins á Stórþinginu hefur lagt fram nýja og mun strangari leið að sama marki.

Norska vísitölufjölskyldan myndi ólíklega finna fyrir því ef tillögur þingmannsins Ketil Kjenseth næðu fram að ganga. Myndir: Avinor og Stortinget

Það er engum blöðum um það að fletta að losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við flugumferð er umtalsverð. Þannig er losun á hvern farþega í þriggja tíma millilandaflugi álíka mikil og frá fólksbíl í fjóra mánuði eða svo. Og til að draga úr menguninni þá settu Norðmenn á flugskatt sem nemur um þúsund krónum á hvern fluglegg. Var vonast til að þetta myndi draga úr ferðagleði íbúa landsins.

Þessi skattheimta hófst í hittifyrra og síðan þá hefur farþegunum fjölgað á stærstu flugvöllum Noregs. Á sama tíma á innanlandsflugið í vök að verjast og í vikunni sagði framkvæmdastjóri Widerøe flugfélagsins að til stæði að leggja niður flug til 18 af þeim 23 þorpum sem félagið flýgur til. Ástæðan væri sú að lagfæringar á flugskattinum ganga ekki nógu langt. Það er nefnilega ætlunin að tvöfalda skattinn á millilandaflugið en lækka á innanlandsflugið um tíund. Sú lækkun er hins vegar ekki nóg að mati forsvarsmanna Widerøe.

Nú er svo komin fram ný tillaga um hvernig megi halda Norðmönnum á jörðinni og hún gengur út á að setja kvóta á flug íbúa landsins. Hver íbúi fær þá úthlutuðum 10 ferðum og þeir sem þurfa að fljúga oftar geta þá keypt ferðir af þeim sem ekki nýta allar sínar tíu. Það er Ketil Kjenseth, þingmaður Vinstri flokksins og formaður orku- og umhverfisnefndar Stórþingsins, sem leggur þetta til samkvæmt frétt danska flugritsins Checkin.

Þingmaðurinn segist líka vera opinn fyrir því að kvótinn miðist við ákveðna losun eða aðeins millilandaflug. Hann segist átta sig á að þessar tillögur séu umtalsverð inngrip inn í líf fólks en Norðmenn verði að spyrja sig hvort þeir vilji áfram vera heimsmeistarar í fjölda flugferða eða ekki.