Villa í ferðamannatalningu

Brottförum erlendra ferðamanna fór ekki fækkandi í ágúst eins og áður hafði verið gefið út.

Mynd: Iceland.is

Í ljós hefur komið villa í talningu Isavia á fjölda brottfara ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli í ágúst sem Ferðamálastofa birti 7. september síðastliðinn. Nemur skekkjan um 18 þús brottfararfarþegum. Skýrist þessi villa af bilun í tölvubúnaði sem heldur utan um talningarnar samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu á vef Ferðamálastofu.

Þar segir að samkvæmt þessu munu brottfarir erlendra ferðamanna í ágúst hafa verið 291 þúsund. Fjölgun ferðamanna í ágúst var því um 2,5% en ekki fækkun um tæp 3% eins og áður kom fram. Miðað við þessar upplýsingar þá hefur erlenda ferðafólkinu hér á landi fjölgað um nærri 3 af hundraði í sumar en ekki um 1,4% eins og Ferðamálastofa og Isavia hafa áður gefið út.

Hafa ber í huga að þó talning á brottförum erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli hafi lengi verið helsta mælistikan á gang mála í íslenskri ferðaþjónustu þá eru í henni töluverð skekkja. Inní tölunni eru nefnilega erlendir ríkisborgarar með heimili á Íslandi og líka hluti skiptifarþega. Könnun sem gerð var síðastliðið sumar, eftir fréttaflutning Túrista af líklegri skekkju, sýndi að 11% brottfararfarþega notuðu flugvöllinn eingöngu til millilendingar eða til að stoppa yfir daginn en gista þó ekki. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma.