Völdu vetrarflug til Los Angeles fram yfir San Francisco

Um 82 prósent sætanna í þotum WOW air til Kaliforníu voru skipuð farþegum síðastliðinn vetur. Félagið flutti þó mun fleiri til Los Angeles og heldur þeirri flugleið opinni vetur en gerir hlé á ferðunum til San Francisco.

sanfrancisco losangeles flug
WOW tekur sér pásu frá flugi til San Francisco í vetur en heldur áfram ferðunum til Los Angeles. Myndir: Unsplash

Það er skortur á breiðþotum í flugflota WOW air og skrifast hann á seinkun á afhendingu á nýjum Airbus 330neo flugvélum. Þoturnar átti flugfélagið að fá nú í byrjun vetrar en núna stefnir í að þær komi í fyrsta lagi til landsins í febrúar. Af þessum sökum hefur WOW air fækkað ferðunum til Nýju-Delí úr fimm í þrjár í viku líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku. Þá fengust þau svör frá flugfélaginu að ein brottför í viku til San Francisco og Los Angeles yrði felld niður vegna breiðþotuskortsins. Fallið hefur verið frá þeirri leið því samkvæmt nýrri tilkynningu frá WOW air mun félagið gera algjört hlé á fluginu til San Francisco frá nóvember og fram í apríl.

Breiðþoturnar sem hefðu flogið til San Francisco fara þá væntanlega til Indlands á meðan engin breyting verður á áætluninni til Los Angeles. Í farþegum talið er sú borg líka flugfélaginu mikilvægari. Síðastliðinn vetur (nóvember til mars) flugu 43 þúsund farþegar með WOW til Los Angeles en 31 þúsund til San Francisco samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á tölum frá bandarískum samgönguyfirvöldum. Sætanýtingin var um 82% á báðum flugleiðum. Samskonar upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi og hefur Túristi kært þá afstöðu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála

Farþegum á Keflavíkurflugvelli mun þó áfram standa til boða að fljúga til San Francisco því Icelandair hóf að fljúga þangað í sumar og verður þetta fyrsta vetrarvertíð félagsins í Kaliforníu. WOW air hefur hins vegar boðið upp á flug þangað frá sumrinu 2016 en lætur nú Icelandair flugleiðina eftir fram á vorið.

Auk ferðanna til San Francisco þá fellur vetrarflug WOW til Edinborgar og Stokkhólms niður. Til þeirrar fyrrnefndu verður áfram hægt að komast héðan með easyJet og til höfuðborgar Stokkhólms flýgur Icelandair daglega og Norwegian er með tvær brottfarir í viku. Sú aðgerð skrifast sennilega á þá staðreynd að WOW hefur reynt að leigja frá sér tvær til þrjár Airbus A321 þotur í vetur.