WOW dregur úr flugi til Miðvesturríkjanna

Þotur íslenska flugfélagsins munu ekki taka stefnuna á St. Louis á nýju ári.

FRÁ ST. LOUIS Mynd: WOW air

Jómfrúarferð WOW air til St. Louis í miðvesturhluta Bandaríkjanna vakti mikla athygli þar í borg í vor. Þetta var nefnilega í fyrsta sinn í 15 ár sem íbúar borgarinnar gátu flogið beint úr heimabyggð til Evrópu. Flugmálayfirvöld og viðskiptaráð borgarinnar fagnaði samgöngubótinni og hétu að veita WOW styrki upp á allt að 800 þúsund dollara, um 92 milljónir króna, ef flugleiðinni yrði haldið úti í að minnsta kosti 2 ár, samkvæmt frétt St. Louis Post-Dispatch.

Nú er ljóst að ekki mun koma til greiðslu á þessum styrk því í tilkynningu sem flugmálayfirvöld í St Louis birtu í gær segir að stjórnendur WOW air hafi ákveðið að hætta flugi til borgarinnar strax eftir áramót. Í tilkynningunni segir að þetta séu vonbrigði í ljósi þess að eftirspurnin eftir fluginu hafi verið mikil meðal íbúa borgarinnar og flugleiðin hafi verið ein sú vinsælasta af þeim sem WOW heldur úti til Miðvesturríkjanna. En auk áætlunarflugs til St. Louis þá fljúga þotur WOW til Chicago, Cleveland, Detroit og Cincinnati sem allar tilheyra þessum hluta Bandaríkjanna.

Af þessum borgum eru Chicago og Detroit þær einu sem eru hluti að vetraráætlun WOW. Ennþá er ekki hægt að bóka flug til Cincinnati né Cleveland næsta sumar en borgirnar bættust báðar við leiðakerfi WOW í ár.

Niðurfelling á ferðum til St Louis er ekki fyrsta breytingin sem WOW air gerir á áætlun sinni eftir að skuldabréfaútboði félagsins lauk fyrir mánuði síðan. Áður hafði verið tilkynnt um vetrarfrí á flugi til San Francisco, Stokkhólms og Edinborgar. Einnig hefur ferðunum til Nýju-Delí verið fækkað og mun sú breyting skrifast á seinkun á afhendingu nýrra breiðþota frá Airbus.