WOW gæti tekið stefnuna á Seattle eða Las Vegas

Í næstu viku ætla forsvarsmenn WOW air að svipta hulunni af nýjum áfangastað í Norður-Ameríku.

seattle 860
Frá Seattle. Mynd: Visit Seattle

Farþegar á níu flugvöllum í Bandaríkjunum geta valið á milli áætlunarferða með bæði Icelandair og WOW og hefur samkeppni íslensku félaganna aukist umtalsvert þar í landi í ár. Nú síðast hóf WOW air sölu á flugi til Orlando en sú borg hefur lengi verið eitt af höfuðvígum Icelandair vestanhafs. Áður hafði Icelandair farið inn á markað keppinautarins í San Francisco og Baltimore.

Bæði flugfélögin boðuðu svo stórsókn í flugi til Miðvesturríkjanna í ár og sérstaklega WOW með flugi til 5 borga á því svæði. Nú hefur  félagið tekið úr sölu flug til St. Louis, Cincinnati og Cleveland sem allar tilheyra svæðinu. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, segir félagið þó ekki vera að draga saman seglin vestanhafs og í viðtali við RÚV í vikunni þá lofaði nýjum áfangastað í Norður-Ameríku eftir helgi.

Hann verst þó frekari frétta af staðarvalinu en miðað við slælegan árangur í miðvesturhlutanum þá má gera ráð fyrir að núna muni WOW bæta við áfangastað þar sem Icelandair er umsvifamikið eða borg sem er þekktur áfangastaður. Verði fyrri leiðin valin þá verður að teljast líklegt að WOW ætli í samkeppni við Icelandair í Seattle. Þar í borg hefur Icelandair dafnað vel síðastliðinn áratug og ferðunum fjölgað umtalsvert. Allt árið í fyrra flutti félagið rúmlega 154 þúsund farþega til og frá borginni sem er um 12 prósent af heildarfarþegafjölda félagsins í flugi til Bandaríkjanna samkvæmt tölum frá bandarískum samgönguyfirvöldum.

Ef Skúli og hans fólk kjósa frekar þekkta borg þar sem Icelandair er ekki fyrir þá er Las Vegas líkleg enda ein vinsælsta ferðamannaborgin þar í landi. Þrátt fyrir það er spilavítaborgin sýnd veiði en ekki gefinn. Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur til að mynda dregið úr framboð á flugi til borgarinnar frá Norðurlöndunum.