WOW vandræðin snúast um málningu

Skýringin á hálfmáluðu breiðþotunni er ekki eins alvarleg og fyrstu fréttir hermdu.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Ein af þotum WOW. Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Nú í vetrarbyrjun áttu tvær breiðþotur að bætast við flugflota WOW air. Afhendingu flugvélanna hefur verið hins vegar verið seinkað fram í byrjun næsta árs vegna seinagangs í verksmiðjum Airbus. Af þeim sökum hefur WOW air gert breytingar á flugáætlun sinni líkt og áður hefur komið fram.

Í dag var svo sagt frá því á vefmiðli Eiríks Jónssonar að ástæðan fyrir því að hálfmáluð breiðþota, merkt WOW air, stæði nú á flugbraut við verksmiðju Airbus í Toulouse í Frakklandi væri sú að íslenska flugfélagið hefði hætt við að taka við flugvélinni. Byggði fréttin á færslu af vefnum Airliners þar sem birt var mynd af grænni þotu með fjólublátt stél merkt WOW.

Samkvæmt svari frá WOW, við fyrirspurn Túrista, þá skrifast útlit þotunnar einfaldlega á þá staðreynd að málarar Airbus stóðu sig ekki í stykkinu. „Það var ósamræmi í fjólubláa litnum, glæran sem notuð er yfir litinn var of gróf á yfirborðinu og stóðst ekki okkar kröfur.“ Í svarinu segir jafnframt að flugvélin verði fljótlega máluð á nýjan leik.

Hálfmálað þotan mun fá heitið TF-BIG og er væntanleg á næsta ári ásamt annarri breiðþotu, TF-MOG. Þess má geta að upphaflega stóð til að WOW air tæki í notkun fjórar nýjar breiðþotur nú í vetur en þær verða tvær.