11 þúsund krónur fyrir jólag­ist­ingu í Subaru

Ferðafólki hér á landi stendur til boða að leigja sér fólksbíla með dýnum allt árið um kring.

Nótt í þessum Subaru kostar um 11 þúsund krónur í vetur. Myndir af vef Black Sheep Campers

Að sofa í fólksbíl yfir köld­ustu mánuði ársins hefur lengi verið tengt við vosbúð og síðast­liðinn vetur bárust fréttir af erfiðri vist þeirra Íslend­inga sem áttu engan annan kost en að gista á tjald­stæðum landsins. Á sama tíma bauðst ferða­fólki hér á landi hins vegar að leigja sér tjöld eða fólks­bíla með dýnum í skottinu líkt og Túristi greindi frá. Þess háttar er einnig í boði nú í vetur og úrvalið er tölu­vert á vefsíðu Airbnb. Þar á meðal er að finna fólksbíl af tegund­inni Subaru Forester á vegum fyrir­tæk­isins Black Sheep Campers og kostar sólar­hring­urinn um 11 þúsund krónur. Er tekið fram í auglýs­ing­unni að í bílnum sé nægt svefn­pláss fyrir tvo full­orðna og eitt barn. Fyrir­tækið auglýsir líka Ford jepp­ling og kostar hann 25 þúsund krónur á sólar­hring.

Stefán Sigfússon hjá Black Sheep Campers, stað­festir í svari til Túrista, að bílarnir séu í raun leigðir út yfir vetr­ar­mán­uðina og þeim fylgi hitari. Við þetta bætir kollegi hans, Þorkell Þorkelsson, að þeir séu í raun aðeins að prófa sig áfram með þetta. „Það fylgja hlýjar sængur og hitari, sem verður að tengjast rafmagni á tjald­svæði, ásamt öðru með okkar bílum. [V]ið erum aðeins að prufa þetta með tvo bíla til að sjá hvernig gengur. Við sendum okkar viðskipta­vinum mjög greinar góðar upplýs­ingar um allar hættur sem geta stafað af vetr­arakstri á Íslandi ásamt því að fara mjög vel yfir hvað skal varast. Þetta hefur gengið mjög vel og okkar viðskipta­vinir hafa verið virki­lega ánægðir sem af er vetri.”

Fyrir­tæki sem leigja út svefn­pláss í bílum þurfa ekki að vera með gisti­leyfi heldur aðeins bíla­leigu­leyfi frá Samgöngu­stofu. Sýslu­maður gefur hins vegar út gisti­leyfin. Pétur Snæbjörnsson, fram­kvæmda­stjóri Fyrir­tækja í hótel- og gisti­þjón­ustu, full­yrðir að engar reglur né eftirlit sé með starf­semi sem þessari. „Gjarnan eru keyptir í þetta sendi­bílar, sem eru lægri toll­flokki, og þeim síðan breytt. Þeir eru svo leigðir út jafnvel sem sendi­bílar en ekki bíla­la­eigu­bílar eða húsbílar. Enginn fylgist með þessu,” segir Pétur. Hann segir líka dæmi um að keyptir séu gamlir bílar og lítið breyttir og það sé síst skárra. „Enginn veit hve margir svona bílar eru í umferð eða til leigu eða hvert umfang starf­semi af þessu tagi er á markaði. Þeim hefur fjölgað hratt undan­farin ár sem er áhuga­vert.” Pétur spyr sig líka hvað það sé í mark­aðs­setn­ingu Íslands sem hvetji til eftir­spurnar eftir þessari gist­ingu og hvernig ferða­mönnum detti í hug að koma hingað að vetri til og kaupa svona þjón­ustu. „Kaup­endur eru jafnvel hvattir til að nýta ekki þjón­ustu tjald­stæða. Samkvæmt tölum Hagstof­unnar gistu 1.000 manns á hverri nóttu í svona ökutækjum utan þjón­ustu­svæða og borga þar með ekki gistinátta­skatt,” bætir Pétur við.

Þess má geta að framboð á næturg­ist­ingu í fólks­bílum á vef Airbnb er miklu meira hér á landi en á hinum Norð­ur­lönd­unum. Sá sem kýs þennan gisti­kost hefur aðeins úr fjórum hjól­hýsum að velja í Hels­inki yfir jólin og í Ósló finnur Airbnb einn bíl með dýnum og fjögur hjól­hýsi. Í Reykjavík eru í dag laus gisting í 41 fólks- eða húsbíl frá 23. til 26. desember.