Áform um daglegt Lundúnarflug gengu ekki eftir

Í haust stóð til að þotur Wizz Air myndu fljúga til Íslands á hverjum einasta degi frá Luton flugvelli. Eftirspurnin reyndist hins vegar ekki nægjanleg fyrir svo tíðar ferðir.

Mynd: Wizz air

Allt frá því að ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz air hóf að fljúga hingað til lands þá hafa umsvif þess aukist ár frá ári. Jómfrúarferðin var farin vorið 2015 frá Gdansk í Póllandi og síðan þá hafa bæst við fjórar aðrar pólskar flugleiðir auk ferða til Búdapest, Riga, Vilnius, Prag og Vínarborgar. Flugið til höfuðborgar Tékklands lagðist reyndar af síðastliðið sumar þegar Wizz air hætti starfsemi þar í borg.

Fyrr á þessu ári hófu þotur Wizz Air líka að fljúga til Íslands frá Luton flugvelli, skammt frá London, fjórum sinnum í viku. Til stóð að fjölga ferðunum í september og bjóða upp á daglegt flug milli Íslands og bresku höfuðborgarinnar í vetur. Af því varð hins vegar ekki og í svari Wizz air segir að frammistaða flugleiðarinnar hafi ekki verið í takt við væntingar. Því hafi verið ákveðið að nýta þoturnar á öðrum áfangastöðum sem taldir eru ábatasamari. Farþegar sem áttu bókuð sæti í ferðirnar sem felldar voru niður geta endurbókað sig í önnur flug félagsins eða fengið inneign sem nemur andvirði flugmiðans auk 20 prósents álags.

Líkt og Túristi greindi frá um helgina þá er í dag hægt að fá flugmiða milli Íslands og Luton flugvallar við London á um 2.700 krónur í janúar. Bæði með Wizz Air og easyJet en auk þess er hægt að fljúga héðan til fjögurra annarra flugvalla í kringum bresku höfuðborgina og vikulega eru brottfarirnar um áttatíu talsins.

Síðustu tvo vetur hefur Norwegian flogið milli Íslands og Lundúna þrisvar í viku en stjórnendur félagsins lögðu flugleiðina niður í vor. Forsvarsmenn British Airways hafa líka dregið úr Íslandsfluginu frá bresku höfuðborginni.