Bjórböðin verðlaunuð af ferðaþjónustunni

Eliza Reid, forsetafrú, afhenti nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar í gærkvöld.

Frá Bjórböðunum Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Að þessu sinni bárust 31 tilnefning í samkeppninni um verðlaunin sem afhent voru í fimmtánda sinn í gærkvöld en þá fór fram 20 ára afmælisfögnuður samtakanna á Hilton Reykjavík Nordica. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Það var Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, sem gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar sem var einróma samþykkt því að Bjórböðin væru vel að verðlaunum ársins komin.

„Bjórböðin voru opnuð í júní 2017 og vöktu þegar mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis enda eru slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun þar sem vellíðan og slökun gegnir lykilhlutverki á nýstárlegan hátt. Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. Böðin eru því þegar orðin mikilvægur segull fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og styrkja markaðssetningu áfangastaðarins allt árið um kring,“ segir í tilkynningu frá SAF.

Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, stofnuðu fyrirtækið Bjórböðin ehf. árið 2015 ásamt syni þeirra og tengdadóttur. Í bjórböðunum er ger úr bjórbrugginu nýtt sem annars hefði verið hent. Bjórböðin eru lýsandi dæmi um frjóan frumkvöðla anda sem skilar sér í áhugaverðri ferðavöru og atvinnuskapandi starfsemi allt árið um kring.

„Við hjá Bjórböðunum erum ótrúlega þakklát og stolt að hafa verið veitt þessa flotta viðurkenning. Þegar við fórum af stað í þetta verkefni höfðum við mikla trú á því að við gætum skapað nýja og ógleymanlega upplifun í ferðaþjónustu. Viðbrögðin frá gestum hafa verið gríðarlega góð og eru því þessi verðlaun mikil viðurkenning af okkar starfi og þökkum við kærlega fyrir okkur,“ segja þau Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur Bjórbaðanna.