Endurnýjun flugflota og uppstokkun á framkvæmdastjórn

Það eru miklar breytingar framundan hjá Flugfélaginu Atlanta.

Hannes Hilmarsson forstjóri Atlanta verður stjórnarformaður félagsins nú um áramót. Mynd: Atlanta

Boeing 747 þotur eru stór hluti af flugflota Flugfélagsins Atlanta en þessar svokölluðu jumbó-þotur  eru óðum að hverfa úr háloftunum. Ekkert af stóru bandarísku flugfélögunum notar þær lengur og forsvarsmenn British Airways gera ráð fyrir að hætta að fljúga þeim innan nokkurra ára. Boeing flugvélaframleiðandinn hefur líka gefið út að breiðþoturnar verði hér eftir aðeins framleiddar undir fraktflutninga. Og nokkrar þess háttar rekur Atlanta í dag sem samtals er félagið með 13 jumbó-þotur á skrá hjá Samgöngustofu. Flugvélarnar eru framleiddar eru á árunum 1990 til 2004 og sumar því komnar til ára sinna.

Nú er hins vegar kominn tími á endurnýjun flotans samkvæmt tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér í dag. „Fjárhagsleg endurskipulagning og uppbygging á B747-400 flugflota félagsins hefur skilað sér í arðbærum rekstri síðan 2009. Félagið er fjárhagslega sterkt og nú er komið að því að taka næstu skref í sögu þess. Okkar bíður það krefjandi verkefni að endurnýja flugflota Atlanta á næstu árum og þróa enn frekar rekstur Atlanta og systurfélaga þess,“ segir Hannes Hilmarsson, forstjóri Atlanta.

Hannes sem verið hefur verið forstjóri flugfélagsins síðustu 12 ár hættir nú um áramótin og tekur við sem stjórnarformaður. Jafnframt tekur hann við framkvæmdastjórn systurfélagsins Northern Lights Leasing ehf, en það félag heldur utan um flugvélar Atlanta. Um áramótin tekur svo Baldvin Már Hermannsson, núverandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs félagsins, við sem forstjóri af Hannesi. Baldvin hefur starfað hjá Atlanta frá árinu 2001 og m.a. stýrt ýmsum verkefnum félagsins í Evrópu, Asíu, Afríku og mið-Austurlöndum.

Má ekki gegna ábyrgðastöðu hjá tveimur flugfélögum samtímis

Ýmsar fleiri breytingar verða gerðar í framkvæmdastjórn Atlanta og Northern Lights Leasing um áramótin. Þannig snýr Sigurður Magnús Sigurðsson aftur til starfa hjá félaginu líkt og Túristi greindi frá í gær. Sigurður hefur síðustu 3 ár verið framkvæmdastjóri hjá WOW air og ábyrgðamaður flugrekstrar félagsins. Hann tekur við sambærilegri stöðu hjá Atlanta en mun þó fyrst taka við ábyrgð á flugrekstri Atlanta um áramótin. Þangað til sinnir hann því starfi hjá WOW air enda má sami einstaklingurinn ekki gegna ábyrgðarstöðum hjá tveimur flugrekendum samtímis. Hann þarf að ljúka starfi sínu á einum stað áður en hann fær heimild til að gegna því hjá öðrum samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. WOW air verður því að finna nýjan flugrekstrarstjóra fyrir áramótin en til stendur að auglýsa stöðuna bæði hér heima og erlendis.