Enn og aftur metár á Keflavíkurflugvelli

Uppfærðar tölur um farþegafjölda í nóvember og desember benda til að heildarfjöldinn um Keflavíkurflugvöll árið 2018 verði 9,8 milljónir farþega. Farþegaspá næsta árs verður birt þegar niðurstaða er komin í áform Icelandair og WOW air.

Mynd: Isavia

Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur verið afar hröð á síðustu árum og samkvæmt nýrri farþegaspá fyrir þetta ár er útlit fyrir að farþegar sem fara um flugvöllinn í ár verði 9,8 milljónir. Það er ögn minni aukning en í þeirri spá sem kynnt var í nóvember 2017 og í uppfærðri spá frá því í vor. Aukningin verður samkvæmt þessu 5,4% í nóvember og 3% í desember frá fyrra ári. Fyrir árið í heild er aukningin 12,2% og byggist sú spá meðal annars á ákveðinni sætanýtingu og verða þær tölur staðfestar í lok árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Á þessum tíma árs þá hefur Isavia birt farþegaspá sína fyrir komandi ár. Vegna óvissu á flugmarkaði og kaupa Icelandir á WOW air þá verður ekki sami háttur hafður á að þessu sinni. „Samruninn seinkar því hvenær áreiðanleg gögn fást frá flugfélögunum og teljum við að spá fyrir 2019 verði tilbúin í byrjun næsta árs,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar. „Það sem einna helst skýrir minni aukningu í ár, miðað við fyrri spá, er að þegar spáin er unnin að hausti þá er alltaf minna vitað um hvernig síðasti ársfjórðungur muni þróast. Þá má gera ráð fyrir að gengi krónunnar hafi einhver áhrif en dýrara var að ferðast til Íslands í sumar en árin á undan.“

Fyrir stuttu var tilkynnt um níu milljónasta farþegann sem fór um Keflavíkurflugvöll á árinu. Sú tala tekur til komu-, brottfarar- og skiptifarþega og var í fyrsta sinn sem því takmarki hefur verið náð á Keflavíkurflugvelli.