Hagstæðast að bóka flug 20 dögum fyrir brottför

Samanburður flugleitarsíðunnar Momondo gefur til kynna að farþegar þurfi ekki að ganga frá bókunum á farmiðum með svo löngum fyrirvara nema ætlunin sé að fljúga langt út í heim.

Mynd: Nils Nedel / Unsplash

Að jafnaði er ódýrast að bóka flugmiða innan Evrópu með 20 daga fyrirvara segja niðurstöður árlegrar könnunar flugleitarsíðunnar Momondo. Ef ætlunin er að halda lengra út í heim þá er vissara að hafa lengri fyrirvara og bóka þegar 56 dagar eru í brottför. Eins og gefur að skilja má gera alls kyns fyrirvara við þessar alhæfingar. Til að mynda er ekki skynsamlegt að bíða lengi með að bóka jólaferðir eða flug yfir hásumarið. Ferðalög á þessum tímum er vissara að panta með lengri fyrirvara og jafnvel um leið og sala hefst.

Þessar ályktanir forsvarsmanna Momondo byggja á leitarniðurstöðum síðastliðið ár en sá tími hefur einkennst af lágum fargjöldum. Þess má svo geta að Momondo er ein þeirra þriggja leitarvéla sem komu best út úr athugun danskra neytendasamtaka nýverið og Túristi hefur reglulega bent lesenum á hana.