Hræódýrir flugmiðar til London eftir áramót

Flugfarið sjálft getur verið einn ódýrasti hluti utanlandsferðarinnar ef stefnan er sett á höfuðborg Bretlands.

london Jethro Stebbings
Frá London. Mynd: Jethro Stebbings / Unsplash

Það kostar þig allt að 3 þúsund krónur að kaupa miða í rútu út á Keflavíkurflugvöll og léttur morgunmatur í Leifsstöð og kostar álíka mikið. Hins vegar kostar það þig aðeins um 2.700 krónur að fljúga með annað hvort easyJet eða Wizz air til Luton flugvallar, skammt frá London, í janúar. Heimferðin kostar það sama í mörgum tilfellum en ef þú vilt taka með þér farangur eða setjast í sætin fremst í þotum þessara lággjaldaflugfélaga þá tvöfaldast og jafnvel þrefaldast fargjaldið.

Þessi merkilega lágu fargjöld til London í janúar eru enn eitt dæmið um hversu ódýrt millilandaflugið héðan getur verið þrátt fyrir að forsvarsmenn flugfélaganna endurtaki það í sífellu að farmiðarnir þurfi að vera dýrari til að vega upp á móti miklum hækkunum á þotueldsneyti síðustu misseri. Ein skýring á þessari verðlagningu á Íslandsflugi Wizz air og easyJet er sú að félögin eru í harðri samkeppni innbyrðis á Luton flugvelli en líka um farþega sem kjósa að fljúga frá hinum flugvöllunum hringinn í kringum London til Íslands. Í heildina eru nefnilega farnar um áttatíu ferðir í viku héðan til London og svo tíðar samgöngur eru ekki í boði til nokkurrar annarrar borgar.

Þú getur nýtt þér leitarvél Momondo til að gera einfaldan verðsamanburð á fluginu til London og í einhverjum tilvikum getur verið ódýrara að fljúga með einu félagi út og öðru heim og jafnvel frá öðrum flugvelli. Við komuna til Keflavíkurflugvallar þá ferðu svo kannski létt með að eyða nokkru meira í Fríhöfninni en þú borgaðir fyrir millilandaflugið.

Smelltu til að bera saman verð á hótelum í London