Icelandair á topplista Conde Nast Traveler

Lesendur eins þekktasta ferðatímarits Bandaríkjanna hafa kveðið upp sinn dóm um bestu erlendu flugfélögin.

Þjónustan um borð í flugvélum Icelandair fær jákvæða umsögn hjá Conde Nast Traveler. Mynd: Icelandair

Hin árlegu lesendaverðlaun ferðatímaritsins Conde Nast Traveler vekja ávallt athygli enda þykir sómi af því að komast á einn af topplistum blaðsins. Ekki bara af því að Conde Nast Traveler er virt rit heldur af því að þátttakan í kjörinu er alla jafna góð. Þannig bárust um 429 þúsund kjörseðlar að þessu sinni og á listanum yfir bestu flugfélögin, utan Bandaríkjanna, er heiti Icelandair að finna.

Íslenska félagið er reyndar í tuttugasta sæti og segir í umsögn að Ísland hefði aldrei orðið svona vinsæll áfangastaður ef ekki væri fyrir hinar góðu samgöngur til og frá landinu. Icelandair fljúgi til að mynda til 16 bandarískra flugvalla, bjóði upp á fyrsta flokks Saga Class, aðgang að betri stofum og vinalega þjónustu um borð. Aðeins þrjú önnur flugfélög á topplistanum fljúga hingað til lands, það eru Lufthansa, SAS og British Airways.

Bestu alþjóðlegu flugfélögin að mati lesenda Conde Nast Traveler:

 1. Singapore Airlines
 2. Emirates
 3. Qatar Airways
 4. Air New Zealand
 5. Aegan Airlines
 6. Etihad Airways
 7. Korean Air
 8. Virgin Atlantic
 9. Cathay Pacific
 10. Lufthansa
 11. Turkish Airlines
 12. EVA air
 13. Swiss
 14. Qantas
 15. KLM
 16. SAS
 17. Air France
 18. Aer Lingur
 19. British Airways
 20. Icelandair