Isavia gefur út þriðju verðskrá ársins

Á mánudag hefst gjaldtaka á rútustæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt nýrri verðtöflu. Hún er aðeins lægri en sú gamla og töluvert undir upphaflega gjaldinu sem Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar.

Eftir helgi mun það kosta 9.900 krónur að leggja stórri rútu við Leifsstöð. Mynd: Isavia

Nú er nærri eitt og hálft ár liðið frá útboði Isavia á aðstöðu fyrir sætaferðir frá Leifsstöð lauk. Hópbílar og Kynnisferðir buðu best og fær Isavia þriðjung af tekjum fyrrnefnda fyrirtækisins af ferðunum og 41,2 prósent af andvirði sölunnar hjá Kynnisferðum. Hið nýja fyrirkomulag gekk í gildi þann 1. mars og um leið hófst í fyrsta sinn gjaldtaka á ytra rútustæðinu þar hópferðabílar og Strætó hafa haft aðstöðu.

Upphaflega átti klukkutímagjaldið þar að vera um 19.900 krónur og kærðu forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line þá gjaldheimtu. Í kjölfarið gáfu stjórnendur Isavia út nýja aðlögunarverðskrá sem var nokkru lægri og á mánudag tekur svo gildi nýtt bráðabirgðagjald. Það er lægra en hið fyrrnefnda aðlögunargjald eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Þessar endurteknu verðbreytingar skrifast á þá staðreynd að gjaldtakan er nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu sem kvað í sumar upp bráðabirgðaúrskurð í málinu og var gjaldtakan stöðvuð í framhaldinu. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála  hefur einnig fjallað um málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki skuli fella úr gildi bráðabirgðaákvörðunina. Endanlegrar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins er nú beðið en samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Isavia í gær þá er ákvörðunar að vænta um hvort gjaldið, sem tekið var frá 1. mars til 17. júlí 2018, verði endurgreitt eða ekki.